Þegar piparkökur bakast...........

Og svo segja einhverjir að maður hafi ekkert að gera í fæðingarorlofi!  Það er alltaf nóg að gera hjá mér, svo mikið að ég hef ekki gefið mér tíma til að blogga alltof lengi.  Ég hef síðustu vikuna verið upptekin við smákökubaksturinn.  Ég er búin að baka 9 sortir og á bara piparkökurnar sem ég flet út eftir.  Ég geymi það yfirleitt alltaf þangað til síðast því mér finnst nauðsynlegt að vera búin að skreyta þegar ég og börnin ráðumst í þetta viðfangsmikla en bráðskemmtilega verkefni að baka piparkökurnar.

Sjálfri finnst mér 10 sortir af smákökum svolítið mikið, en ég get ekki hugsað mér að sleppa neinni þeirra og eru mömmupiparkökurnar, sörurnar, hálfmánarnir, mömmukökurnar, loftkökurnar, lakkrístopparnir, ostakexið, súkkulaðibitakökurnar, brjóstsykurtopparnir og piparkökurnar ómissandi þáttur í jólahaldinu hjá okkur.  Og það besta er að heimilisfólkið er mjög þakklátt og borðar þetta allt með góðri lyst.

Föstudaginn fyrir viku var nóvemberskemmtun í grunnskólanum á Hólum.  Þessi skemmtun er árlega í kringum dag íslenskrar tungu og er sko ekki að spyrja að því að börnin stóðu sig með eindæmum vel.  Sindri Gunnar lék lofthræddan hrafn í leikriti um landnám Íslands og Aníta Sóley lék vinnukonu í leikritinu ,,en hvað það var skrítið''.  Leikskólinn er nefnilega með í skemmtuninni og er eitt af mörgum dæmum um hversu góð samvinna er á milli skólastiganna tveggja.  IMG_3670Það er frábært að sjá hvað börnin og kennararnir leggja mikinn metnað í skemmtunina og var þetta virkilega skemmtilegt eins og fyrri ár.  Hér koma myndir af þeim systkinunum.

 

 

Sindri Gunnar lengst til vinstri

 

 

Aníta Sóley skvísaIMG_3657

En nú er jólaskrautið að mestu komið upp.  Ég uppgötvaði reyndar í gær að það vantar að minnsta kosti einn kassa af jólaskrauti sem er einhvers staðar í bílskúrnum mínum í Hafnarfirði.  Það verður einstaklega gaman að leita að kassanum þegar við komum suður ;) - Þórður, þessu er sérstaklega beint til þín!! 

Elsa litla er með bólginn góm þessa dagana og styttist í fyrstu tönnina.  Hún er samt ótrúlega róleg miðað við hversu vont þetta hlýtur að vera.  En piparkökubaksturinn verður sem sagt í dag - mmmmmm, hvað ég hlakka til!


Rjómi

Uppáhaldskennarinn minn í grunnskóla sagði eitt sinn við mömmu í foreldraviðtali að ég væri algjör rjómi.  Hann átti við það að mér gengi vel að öllu leyti - enda segir það sig sjálft að rjóminn er auðvitað toppurinn á öllum mjólkurafurðum - ekki satt?  Rjóminn er því góður mælikvarði fyrir eitthvað sem er gott og það hlýtur því að vera mjög slæmt að vera undanrenna. 

Þessi frábæri kennari minn var ekki uppáhaldskennarinn minn vegna þess sem hann sagði um mig, heldur hvatti hann okkur óharðnaða unglinganna til að vera stolt af okkur sjálfum - hvernig sem við værum.  Þessi hvatning hans náði án efa einnig til FH- inganna sem tileinkuðu honum fyrsta Íslandsmeistaratitil sinn í fótbolta haustið 2004.  Hann lést um vorið sama ár.

Já rjóminn er fín mælieining.  Ég ætla alla vega að nota þennan mælikvarða til að upplýsa að nú hef ég tapað sem samsvarar 49 pelum af rjóma eða 12, 3 kg.  Það er alveg ásættanlegur árangur frá 1. september að mínu mati.  Þetta gengur bara bærilega og nú er ég byrjuð í boot-camp tvisvar í viku.  Það er ótrúlega gott að fá auka hreyfingu og vekja um leið aftur til lífsins vöðva sem ég kynntist fyrir rúmu ári síðan en hafa svo legið í dvala. 

Ég sé ekki eftir þessum rjómapelum og lýsi því alls ekki eftir þeim.  Vonandi munu þeir bara halda sig sem lengst í burtu frá mér hér eftir og fleiri rjómapelar tapast.  En hins vegar er lífið auðvitað hinar ýmsu mjólkurvörur - oft nýmjólk , stundum léttmjólk, sjaldan undanrenna en oftast algjör rjómi!


Stór áfangi í lífi lítillar dömu

Sá stórmerkilegi atburður átti sér stað í dag að Elsa Margrét, 5 mán + 1 daga velti sér alveg yfir á magann í fyrsta sinn.  Hér er myndband af því. 

Krílið fór í fimm mánaða skoðun í dag og er 63 cm og 7,2 kg.


Snillingarnir

Ég er auðvitað alveg hlutlaus þegar ég segi að börnin mín eru algjörir snillingar.  Drengirnir spiluðu á tónleikum í grunnskólanum sl. föstudag og gekk þeim mjög vel.  Hér má sjá myndbönd frá því.

Bjarni Dagur er búinn að æfa á píanó síðan hann var 8 ára og Sindri Gunnar var að byrja í gítarnámi nú í haust.  Einn af mörgum kostum við það að búa hér á Hólum er sá að kennarar tónlistarskólans koma í grunnskólann og kenna börnunum þar.  Við keyrum Bjarna Dag reyndar á Krókinn tvisvar í viku svo hann komist í sitt píanónám því hann er kominn svo langt og kennarinn sem hann fékk kemur hvorki til Hóla né í Hofsós. 

Stúlkurnar eru ekki síðri snillingar.  Elsa Margrét er næstum því farin að velta sér yfir á magann, hún skilur bara ekki að önnur höndin hennar er alltaf að flækjast fyrir henni svo hún kemst ekki alla leið.  Hún er orðin dugleg að snúa sér á teppinu í hálfhring og ég hef varla undan að fylgjast með þeim þroskabreytingum sem eru í gangi.  Aníta Sóley er að læra að lesa.  Það gengur mjög hratt og vel því hún gleypir í sig þekkinguna á augabragði. 

Helsta æðið á heimilinu þessa dagana er þó skákíþróttin.  Börnin tefla sín á milli í tíma og ótíma og tefldu við afa sinn í nýlegri heimsókn hans hingað.  Í gær spurði Aníta Sóley hvort ég vildi ekki tefla við hana og bað ég hana um að stilla upp meðan ég kláraði að ganga frá þvottinum.  Það stóð ekki á því og var dóttirin búin að stilla rétt upp á augabragði.  Eftir að hafa fært til skákmennina um það bil fjórum sinnum heyrðist hátt og hvellt;  ,,SKÁK OG MÁT"  úr munni fimm ára dóttur minnar - og það voru orð að sönnu!


jákvæðar fréttir

Eins og við vitum öll eru fréttirnar sem við fáum daglega mjög neikvæðar.  Alltaf þegar maður telur að botninum í þessu efnahagshruni sé náð, þá virðist botninn bara síga meira.  Þetta er helsta umræðuefni okkar hvort sem er í vinnunni, í saumaklúbb eða heima hjá okkur.  Við erum áhyggjufull um framtíð okkar og barnanna okkar, við vitum ekki hverjum á að treysta og hverjum þetta er um að kenna.  Það versta er að við vitum ekki hvað bíður okkar.  Margir eiga um mjög sárt að binda og nú þurfum við frekar en nokkru sinni áður að standa saman og hugsa vel hvert um annað.

Ég hef alla tíð verið mikil Pollýanna sem lýsir sér helst í því að ég reyni að líta á jákvæðu hliðarnar á hlutunum eins mikið og mögulegt er.  Þessi Pollýönnuhugsunarháttur getur komið sér vel og dempað þau áföll sem dynja yfir mann.  Hins vegar verður að passa sig að fara ekki í einhverja afneitun og láta eins og ekkert sé.

Ég fann meðal annars jákvæða frétt á netinu um daginn.  Fjallað var um að kirkjusókn Íslendinga hefur aukist á síðastliðnum vikum.  Ég veit ósköp vel að það kemur ekki til af góðu því fólk er að leita sér sáluhjálpar eða frið fyrir öllu áreitinu í kringum okkur.  En mér finnst mjög jákvætt að fólk leiti til kirkjunnar.  Sjálf hef ég aldrei talið mig neitt ofsalega trúaða en barnatrúin mín er enn í góðu gildi. 

Börnin mín eru svo heppin að sóknarpresturinn kemur  á viku- til hálfsmánaðarfresti í leikskólann og grunnskólann og fræðir þau um Jesús.  Með fræðslunni læra börnin um þann boðskap sem Jesús hafði fram að færa og á enn þann dag í dag fullt erindi til allra burtséð frá því hversu trúaðir þeir eru.  Þessi boðskapur skilar sér til barnanna því þegar þau koma heim leggja þau mér lífsreglurnar á hátíðlegan hátt - ,,þú mátt ekki stela!'' - ,,allir eiga að hjálpa hverjum öðrum!'' - ,,við eigum alltaf að segja satt!" Þetta eru örfá dæmi um hversu vel þessi lífsgildi sem við teljum sjálfsögð hafa skilað sér til barnanna.  Það væri óskandi að þeir sem bera ábyrgð á því hvernig komið er fyrir íslenska efnahagskerfinu hefðu þessi sömu lífsgildi að leiðarljósi - þá værum við örugglega í betri málum. 

En við eigum svo sannarlega að halda áfram að trúa á allt það góða og yndislega sem lífið hefur enn upp á að bjóða.  Þó það komi ekki fram í fréttunum.


Ég var lítið barn

Góð og viðburðarrík helgi er að baki.  Mamma, pabbi og Árni Þórður voru hjá okkur um helgina og var yndislegt að fá þau.  En það er alltaf erfitt að kveðja vitandi það að hittast ekki aftur á næstunni.  Það er enn erfiðara þegar maður á svona lítið barn sem stækkar og breytist hratt og fjölskyldumeðlimir ekki daglegir þátttakendur í því.  En eitt er víst - ég kann enn betur að meta þær stundir sem ég fæ með fjölskyldu og vinum fyrir vikið.

Bjarni Dagur hélt veislu á sunnudaginn fyrir bekkjarsystkini sín úr 8. og 9. bekk sem eru í samkennslu.  Alveg er það merkilegt hvað þetta eru þroskaðir táningar - ekki eru mörg ár síðan að afmælisveislur hans einkenndust af hlaupum, hoppum og miklum öskrum.

Sindri Gunnar er búinn að vera að æfa hið fallega ljóð Barn eftir Stein Steinarr við lag Ragnars Bjarnasonar í skólanum sínum.  Það frábæra er að hann veit líka hvað átt er við í textanum og þetta yndi útskýrði það fyrir mér til vonar og vara ef ég vissi ekki merkinguna.  Þetta fallega ljóð er mjög táknrænt fyrir það hvernig við lítum á okkur sjálf annars vegar og svo hvernig aðrir líta á okkur.  Við erum alltaf þau sömu inni í okkur þó svo árin færast yfir okkur og við eigum svo sannarlega að varðveita barnið í okkur.  Drengurinn söng lagið fyrir ömmu sína og afa um helgina.  Mamma spilaði að sjálfsögðu undir á píanóið - enda verður hún reglulega að halda við kunnáttunni.  Ég læt hér smá brot af tónlistarflutningnum fylgja með en Sindri ruglaðist smá þegar hann varð var við upptökuna.  En svo sannarlega upprennandi söngvari á ferð!


Lítill drengur ljós og fagur

,,Óðum steðjar að sá dagur, afmælið þitt kemur senn.  Lítill drengur ljós og fagur, lífsins skilning öðlast senn.''  Mér verður alltaf hugsað til þessa fallega texta þegar synir mínir tveir eiga afmæli.  Kannski vegna þess að þeir eru báðir svo ljósir yfirlitum og auðvitað einstaklega fagrir.

Það var fyrir þrettán árum síðan að ég fékk það mikla og stóra hlutverk að verða móðir.  Áætlaður fæðingardagur var 12. nóvember og við Þórður vorum enn í vikulegri foreldrafræðslu.  Fimmtudagskvöldið 26. október fórum við einmitt með öðrum væntanlegum foreldrum úr þeim hópi upp á Landspítala að skoða fæðingar- og sængurkvennadeildina.  Flestir skoðuðu aðstæður annars hugar því hugur allra var á Flateyri þar sem snjóflóð hafði fallið nóttina á undan og ljóst að margir höfðu týnt lífi.  Að vettvangsferð lokinni fengum við okkur ís og leigðum okkur gamanmynd á Skalla - það veitti ekki af að létta lundina eftir hörmungafréttir.

Morguninn eftir vaknaði ég við að legvatnið var farið.  Ég hringdi í Þórð sem farinn var í vinnu og hann brunaði heim, sótti mig og saman fórum við upp á spítala.  Þar sem engir verkir voru, var ætlunin að senda mig heim.  Ég tók það ekki í mál þar sem barnið var ekki búið að skorða sig í síðustu skoðun á undan og fékk því að bíða.  Það var ekki fyrr en um kvöldið sem fyrstu verkirnir komu og jukust þeir hægt en kröftuglega.  Ég var hvött til að ganga um og gerði ég eins og mér var sagt - enda einstaklega vel upp alin;)

Það var svo kl. 01:56 aðfaranótt fyrsta vetrardags, laugardagsins 28. október 2005 sem litli fallegi strákurinn minn fæddist.  Naflastrengurinn var þétt vafinn um hálsinn þar sem hann hafði ekki verið skorðaður í grindinni og hann þurfti súrefni auk þess sem soga þurfti upp úr honum.  Það vildi hins vegar svo til að súrefnið virkaði ekki og stofan fylltist af fólki sem svo hljóp með hann fram.  Þegar búið var að koma litla anganum almennilega í gang var hann í hitakassa í um klukkustund svo hann gæti jafnað sig.  Svo fékk ég litla kútinn loksins í faðminn, mjúka og hlýja ljóshærða drenginn minn.

Enn þann dag í dag er sonur minn ljóshærður, mjúkur og hlýr.  Hann er hins vegar ekki lítill lengur, orðinn töluvert hærri en ég og er að jafna pabba sinn - sem reyndar þarf ekki mikið til!  Sem fyrr er drengurinn einstaklega ljúfur og góður og sérstaklega þægilegur í umgengni.  Framundan eru unglingsárin og vona ég bara að hann fari ljúft í gegnum þau.  Sjálfri finnst mér örstutt síðan ég var á svipuðum aldri og hann er nú og það er alveg ótrúlegt hversu hratt tíminn líður.  Það er því svo nauðsynlegt að njóta hvers dags vel og skapa sér um leið góðar minningar.  Þannig getur maður litið sáttur um öxl og verið stoltur af öllu því sem maður hefur áorkað í lífinu - stóru sem smáu.  En hafa þarf hugfast að smáu hlutirnir eru yfirleitt þeir sem skipta mestu máli.

Bjarni Dagur minn, innilegar hamingjuóskir með þrettán ára afmælið þitt.


Að leika sér

Það hefur svo sannarlega snjóað mikið hér á Hólum síðustu daga.  Svo mikið hefur bætt í að daglega höfum við þurft að moka okkur út úr húsi og niður tröppurnar.  Skóflan er því mesta þarfaþingið hér þessa dagana.  Auk þess að nota skófluna til að moka okkur út hefur Þórður nýtt hana til að hjálpa öðrum sem fest hafa bílana sína.  Svo hefur hún komið sér vel í gangagerð en ég og börnin höfum notað hana óspart og búið til fjölda mörg göng í snjóskaflinum sem er við útidyrahurðina okkar.  Já, það er búið að vera mikið fjör í snjónum og naut ég þess alla helgina að leika mér úti í snjónum með börnunum á milli þess sem ég sinnti litlu snúllunni sem hafði það gott innan dyra í hlýjunni.

Fjörið í snjónum náði þó án efa hámarki í gær þegar Þórður bættist í hópinn.  Leikurinn í snjónum sem hafði fram að því snúist um verkfræðipælingar um hvernig best væri að standa að næstu göngum breyttist í allsherjar snjóslag.  Alveg er það einstakt að það gerist í hvert sinn þegar Þórður á í hlut - tilviljun?  Fjölskylduslagurinn sem gekk fyrst og fremst út á að koma sem mestum snjó á annan þróaðist fljótt út í að ég og börnin vorum saman á móti Þórði.  Einhvern veginn tókst honum samt alltaf að hafa betur - við verðum greinilega að fara að gefa í.  Litla krílið svaf sem fastast innan dyra á meðan þessu stóð í beinni útsendingu við talstöðina góðu sem ég hafði með mér. 

IMG_3246Það eru algjör forréttindi að geta leikið sér beint fyrir utan útidyrnar sínar.  Heilan ævintýraheim er að finna hér eins og myndin sem fylgir hér með sýnir. 

Já, það eru sko orð að sönnu þegar sagt er að við hættum ekki að leika okkur vegna þess að við verðum gömul, heldur verðum við gömul vegna þess að við hættum að leika okkur.  Ég stefni alla vega að því að halda áfram að leika mér um ókomna tíð og hvet ég alla til þess að fara að leika sér.  Í leik höfum við tækifæri til að gleyma stund og stað og njóta okkur á eigin forsendum óháð utanaðkomandi aðstæðum.  Við sköpum okkar eiginn heim og getum fengið útrás fyrir tilfinningar okkar og þá reynslu sem við höfum á umheiminum. 

Ef einhvern tímann er þörf á að gleyma sér í leik, þá er það núna.  Endalausar fréttir og umræðuþættir um hvernig komið er fyrir þjóðinni okkar í fjárhagsmálum geta ekki annað en dregið mann niður.  Því er frábært að skella sér í góðan leik og gleyma bæði stað og stund á meðan.  Mér leið alla vega miklu betur eftir á. 


Ísfólkið

Það er orðið langt síðan ég bloggaði síðast.  Málið er að ég er yfirleitt svo eftir mig þegar ég er búin að vera fyrir sunnan.  Ég var sem sagt fyrir sunnan um þar síðustu helgi og átti þar yndislega daga eins og venjulega.  Við vorum bara allt of stutt þar - frá föstudegi til sunnudags.  Ég fékk þó færi á að hitta bestu vinkonurnar og notuðum við tækifærið til að gæsa hana Guggu okkar sem gifti sig í sumar í Svíþjóð og kom okkur þannig á óvart.  Það kom samt ekki til greina að láta hana sleppa við gæsastandið sem við hinar þurftum allar að ganga í gegnum, en við vorum mjög góðar við hana.  Frábær spurninga-ratleikur að hætti Hörpu Hrannar við Hvaleyravatn, magadans, kósý stund í pottinum og girnilegur og bragðgóður matur var dagskrá dagsins og þetta var virkilega skemmtilegt.  Við vorum sem sagt mjög góðar við hana.  Ég get nú ekki sagt að ég hafi fengið eins góða meðferð þegar ég var gæsuð fyrir tíu árum síðan.  Þessar frábæru vinkonur mínar boðuðu mig á snyrtivörukynningu heima hjá Helenu.  Þegar ég kom þangað tók Lína mamma hennar á móti mér og bað mig vinsamlega um að fara í froskabúning takk fyrir sem skipun frá mínum góðu vinkonum.  Auk þess fékk ég strætómiða og brauð í poka.  Ég átti sem sagt að fara í strætó inn í Reykjavík og niður að Reykjavíkurtjörn.  Það vildi svo ,,skemmtilega'' til að það var langur laugardagur og því troðfullur strætó af fólki.  Eins og gefur að skilja vakti þessi búningur óskipta athygli í strætó en það versta var að enginn spurði mig;  ,,bíddu fyrirgefðu - en af hverju ertu í froskabúningi?''  Þess í stað horfði fólk á mig og leit svo undan.  Helst af öllu langaði mig til að standa upp og segja;  ,,sko það er verið að gæsa mig'' en kunni ekki alveg við það.  Þegar að tjörninni var komið og ég búin að gefa öndunum brauðið úr pokanum, komu vinkonurnar skellihlæjandi og létu mig halda áfram að gera mig að fífli.  Það vildi reyndar svo skemmtilega til að ég hitti fagurt blóm við tjörnina en það var hann Þórður minn sem fékk svipaða meðferð frá vinum sínum.  En svo voru stelpurnar líka góðar við mig og dekruðu við mig í lokin.

En það er svo sannarlega mikils virði að eiga góða að þegar maður býr svona langt í burtu.  Þessar yndislegu vinkonur mínar hafa yfirleitt skipulagt saumaklúbb þegar þær vita að ég er að koma þannig að ég hef færi á að hitta þær allar í einu.  Það er nefnilega þannig að þegar við komum suður er svo margt sem þarf að gera.  Við viljum auðvitað hitta sem flesta og svo þarf alltaf að útrétta ýmislegt sem við getum ekki gert fyrir norðan.  Síðan má ekki gleyma því að við viljum líka geta átt tíma með fjölskyldum okkar í rólegheitunum og þá er tíminn yfirleitt orðinn naumur. 

Eins og það er nú gott að koma suður og hitta alla, þá er líka erfitt að kveðja.  Þó okkur líði öllum vel hér norðan heiða og við höfum haft færi á að eignast fjölmarga góða vini, þá er erfitt að vita af fjölskyldunni svona langt í burtu.  En ég tel okkur þó kunna vel að meta það sem við eigum og við erum þakklát fyrir að eiga svona marga góða að.  Það er ekki síður núna á þessum erfiðu tímum sem dynja yfir okkur að ég finn fyrir mikilvægi þess að eiga góða vini og yndislega fjölskyldu.  Því þrátt fyrir versnandi efnahag þá verða sterk fjölskyldu- og vinabönd ekki tekin frá okkur.  Og þó ég hafi talið mig kunna vel að meta það sem ég á og vera þakklát fyrir það þá finn ég það enn betur núna.

Annars er nú alltaf nóg að gera hér og mikið líf og fjör að venju.  Litla krílið náði sér í hita fyrir helgi en er að jafna sig á honum.  Þetta litla yndi sem fæddist með mikið svart hár er að verða sköllótt og mér sýnist að ljósir lokkar muni innan skamms líta dagsins ljós.  Aníta nýtur lífsins sem aldrei fyrr í leikskólanum og óskar sér daglega að það sé dótadagur.  Hún telur sig vera orðna mjög fullorðna - orðin fimm ára - er komin í skólahóp og er alveeeeeeeeeg að verða sex ára!(hún varð fimm í lok ágúst;)) Alla vega reyndi hún af öllum krafti í gærkvöldi að sannfæra okkur foreldrana um að leyfa henni að horfa á Svarta engla.  Henni fannst það alveg sjálfsagt í ljósi þess að mjög fljótlega yrði hún fullorðin.  Svo varð hún fyrir miklum vonbrigðum með að við keyptum engin af hennar rökum og vísuðum henni í rúmið. 

Sindri æfir sig á gítarinn af fullu kappi.  Ég sem hef nú yfirleitt ofurtrú á börnunum mínum var ekki alveg að sjá í byrjun að hann myndi hafa gaman af að æfa á gítar þar sem hann hætti bæði á klarinett og píanó.  En gítarinn virðist eiga vel við hann og hann æfir sig samviskusamlega heima.  Drengurinn er líka duglegur að skjóta á mig í hvert sinn sem ég hrósa honum og segir - og þú hélst að ég myndi ekki æfa mig!  Já, hann kann að spila á samviskuna mína því þetta var í fyrsta og eina skiptið sem ég hef reynt að draga kjark úr börnunum mínum.  Það er frábært að hann fær gítarkennslu í skólanum á skólatíma.  Bjarni Dagur verður táningur innan skamms þar sem þrettán ára afmælið nálgast óðum.  Þessi ,,Longintesh'' er mín táknmynd um hvað tíminn líður hrikalega hratt.  Drengurinn er orðinn töluvert hærri en ég og viti menn - hann er farinn að lesa Ísfólkið!!!!!!  Þessar dásemdarbækur las ég spjaldanna á milli sem unglingur.  Mamma og systur mínar keyptu fyrstu bækurnar og svo hélt ég áfram að safna og nú á ég þær allar 47.  Svo hélt ég úti bókasafni og lánaði vinkonum mínum bækurnar þegar ég hafði lokið við þær sjálf.  Ég eignaðist reyndar ekki alveg allar bækurnar jafn óðum heldur tók ég mig til fyrir örfáum árum að kaupa í gegnum netið þær fáu bækur sem upp á vantaði svo ég ætti heildarsafnið.  Drengurinn sótti kassann með bókunum góðu í bílskúrinn okkar í síðustu suðurferð og hugsar sér nú aldeilis gott til glóðarinnar - nóg að lesa framundan!  Svo er aldrei að vita nema ég fari að lesa þessar bækur aftur - það er nú aldeilis langt um liðið þó það sé mér í mjög fersku minni.

Talandi um Ísfólk þá líður mér sem slíku í öllum snjónum hér á Hólum.  Það er allt orðið hvítt og enn bætir í.  Það er einstaklega fallegt á að líta og öll fallegu grenitrén sem eru við húsið okkar eru aldeilis komin í jólafötin.

Já svo mörg voru þau orð- verið góð við hvert annað.


Brjóstaþoka

....,,Á Hólum í Hjaltadal má gera ráð fyrir þoku næstu mánuðina.  Þokan liggur þétt og getur valdið gleymsku og þeir einstaklingar sem þokan herjar á verða óvenju utan við sig.''...........

Svona hljómar spáin fyrir mig á næstunni og það er gott að vita hverju ég og þeir sem eru í kringum mig geta átt von á.  Hin dásamlega brjóstaþoka hefur verið viðloðin mig frá 11. júní sl., nánar tiltekið frá fæðingardegi dóttur minnar.  Ég veit ekki hversu mikið brjóstaþoka hefur verið vísindalega könnuð en hún er svo sannarlega til staðar hjá fjölda mæðra sem eru með brjóstmylkinga.  Hvað það er sem veldur þessu þori ég ekki að fullyrða um en hins vegar er það auðvitað staðreynd að litlu krílin eru eins og hluti af líkama okkar þegar við erum með þau á brjósti og tengslin því mjög sterk.  Við mæðurnar hugsum því mjög mikið út frá litla krílinu okkar og erum því ekki í þráðbeinum tengslum við alheiminn í augnablikinu.  Svo getur líka vel verið að þetta sé hormónatengt - alla vega hef ég hug á því að kynna mér þessa þoku betur sem hefur umlukið mig að undanförnu.

Það eru ófáar sögur sem ég hef heyrt frá vinkonum mínum í sambandi við brjóstaþoku.  Og sumar þeirra eru alveg drepfyndnar.  Brjóstaþokan getur nefnilega gengið mislangt.  Algengt er að gleyma því hvað maður ætlar að segja en fáir lenda þó kannski í því að taka óvart inn rítalínstöflu sonar síns eins og vinkona mín lenti í! Þessi sama yndislega vinkona mín lenti einnig í þeirri vondu stöðu að hún taldi sig hafa týnt barninu sínu sem hún leitaði af um alla íbúðina.  Hún skildi ekkert í því hvernig litla barnið var horfið þar til hún mundi eftir því að maðurinn hennar hafði tekið það með sér út í smá stund.

Hjá mér snýst þetta meira um það að ég er get verið mjög utan við mig.  Greyið Þórður minn er oft búinn að segja mér eitthvað mjög merkilegt og ég búinn að segja aha, já og mhhm á réttum stöðum þegar ég horfi á hann og spyr; ,,bíddu, hvað varstu aftur að segja?''  Það er þó verra ef hann þarf mitt álit á einhverju og getur það kostað miklu lengri útskýringar en eðlilega hefði þurft á að halda.  Ég finn líka að ég þarf að gæta mín betur þegar ég er að baka sem er ósjaldan hér í sveitinni.  Margar uppskriftir er ég löngu búin að læra utan að, en nú þýðir ekkert annað en að hafa matreiðslubókina við hliðina á mér því ég gleymi stundum jafnóðum hvort ég sé búin að setja lyftiduft eða salt í deigið.  Það krefst líka oft mikilla heilabrota að muna hvort brjóstið ég bjóði Elsu Margréti næst þar sem ég gleymi yfirleitt hvorum megin hún drakk síðast.  En meðan þessi brjóstaþoka er ekki þykkari en þetta yfir höfði mér, þá get ég bara haft gaman af þessu og reynt að njóta þessa stutta tímabils í lífi mínu og dóttur minnar.  Þetta getur reyndar virkað sem ágætis afsökun fyrir þeim mistökum sem ég geri - ekki slæmt að geta skýlt sér á bak við þokuna!

Ég veit hins vegar ekki hvaða afsökun þeir hafa sem bera ábyrgð á því hvernig komið er fyrir íslensku þjóðinni - alla vega er það ekki brjóstaþoka!  Þeir hafa líklega ótal afsakanir á takteinum og benda hver á annan.  Engin vill taka ábyrgð þó ég vona svo sannarlega að orð Steingríms Joðs muni ganga eftir og þeir sæta ábyrgð sem hlut áttu að máli og leggja sig alla fram að skila þeim fjármunum til baka sem búið er að koma fyrir á hinum og þessum eyjum úti í heimi.  Það er reyndar auðvelt að segja eftir á,  ,,ég sagði ykkur að þetta myndi gerast'' en það var búið að vara við þessu. 

En ég hef fulla trú á því að við stöndum þetta af okkur með mikilli reisn.  Og það jákvæða er að ég er handviss um að við lítum öll meira í eigin barm og spyrjum okkur að því hvað skiptir okkur mestu máli í lífinu.  Við forgangsröðum upp á nýtt og metum um leið allt það góða sem lífið hefur gefið okkur og allt það jákvæða sem það hefur upp á að bjóða.

Góðar stundir


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband