Brjóstaþoka

....,,Á Hólum í Hjaltadal má gera ráð fyrir þoku næstu mánuðina.  Þokan liggur þétt og getur valdið gleymsku og þeir einstaklingar sem þokan herjar á verða óvenju utan við sig.''...........

Svona hljómar spáin fyrir mig á næstunni og það er gott að vita hverju ég og þeir sem eru í kringum mig geta átt von á.  Hin dásamlega brjóstaþoka hefur verið viðloðin mig frá 11. júní sl., nánar tiltekið frá fæðingardegi dóttur minnar.  Ég veit ekki hversu mikið brjóstaþoka hefur verið vísindalega könnuð en hún er svo sannarlega til staðar hjá fjölda mæðra sem eru með brjóstmylkinga.  Hvað það er sem veldur þessu þori ég ekki að fullyrða um en hins vegar er það auðvitað staðreynd að litlu krílin eru eins og hluti af líkama okkar þegar við erum með þau á brjósti og tengslin því mjög sterk.  Við mæðurnar hugsum því mjög mikið út frá litla krílinu okkar og erum því ekki í þráðbeinum tengslum við alheiminn í augnablikinu.  Svo getur líka vel verið að þetta sé hormónatengt - alla vega hef ég hug á því að kynna mér þessa þoku betur sem hefur umlukið mig að undanförnu.

Það eru ófáar sögur sem ég hef heyrt frá vinkonum mínum í sambandi við brjóstaþoku.  Og sumar þeirra eru alveg drepfyndnar.  Brjóstaþokan getur nefnilega gengið mislangt.  Algengt er að gleyma því hvað maður ætlar að segja en fáir lenda þó kannski í því að taka óvart inn rítalínstöflu sonar síns eins og vinkona mín lenti í! Þessi sama yndislega vinkona mín lenti einnig í þeirri vondu stöðu að hún taldi sig hafa týnt barninu sínu sem hún leitaði af um alla íbúðina.  Hún skildi ekkert í því hvernig litla barnið var horfið þar til hún mundi eftir því að maðurinn hennar hafði tekið það með sér út í smá stund.

Hjá mér snýst þetta meira um það að ég er get verið mjög utan við mig.  Greyið Þórður minn er oft búinn að segja mér eitthvað mjög merkilegt og ég búinn að segja aha, já og mhhm á réttum stöðum þegar ég horfi á hann og spyr; ,,bíddu, hvað varstu aftur að segja?''  Það er þó verra ef hann þarf mitt álit á einhverju og getur það kostað miklu lengri útskýringar en eðlilega hefði þurft á að halda.  Ég finn líka að ég þarf að gæta mín betur þegar ég er að baka sem er ósjaldan hér í sveitinni.  Margar uppskriftir er ég löngu búin að læra utan að, en nú þýðir ekkert annað en að hafa matreiðslubókina við hliðina á mér því ég gleymi stundum jafnóðum hvort ég sé búin að setja lyftiduft eða salt í deigið.  Það krefst líka oft mikilla heilabrota að muna hvort brjóstið ég bjóði Elsu Margréti næst þar sem ég gleymi yfirleitt hvorum megin hún drakk síðast.  En meðan þessi brjóstaþoka er ekki þykkari en þetta yfir höfði mér, þá get ég bara haft gaman af þessu og reynt að njóta þessa stutta tímabils í lífi mínu og dóttur minnar.  Þetta getur reyndar virkað sem ágætis afsökun fyrir þeim mistökum sem ég geri - ekki slæmt að geta skýlt sér á bak við þokuna!

Ég veit hins vegar ekki hvaða afsökun þeir hafa sem bera ábyrgð á því hvernig komið er fyrir íslensku þjóðinni - alla vega er það ekki brjóstaþoka!  Þeir hafa líklega ótal afsakanir á takteinum og benda hver á annan.  Engin vill taka ábyrgð þó ég vona svo sannarlega að orð Steingríms Joðs muni ganga eftir og þeir sæta ábyrgð sem hlut áttu að máli og leggja sig alla fram að skila þeim fjármunum til baka sem búið er að koma fyrir á hinum og þessum eyjum úti í heimi.  Það er reyndar auðvelt að segja eftir á,  ,,ég sagði ykkur að þetta myndi gerast'' en það var búið að vara við þessu. 

En ég hef fulla trú á því að við stöndum þetta af okkur með mikilli reisn.  Og það jákvæða er að ég er handviss um að við lítum öll meira í eigin barm og spyrjum okkur að því hvað skiptir okkur mestu máli í lífinu.  Við forgangsröðum upp á nýtt og metum um leið allt það góða sem lífið hefur gefið okkur og allt það jákvæða sem það hefur upp á að bjóða.

Góðar stundir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

já Linda ég gæti sagt margar á þá meina ég mjög margar sögur af þér í brjóstaþoku. 

T.d Sindri spurði einu sinni "hvar er Aníta" þá svarar Linda Í ruslinu haha

Ég er að vakan einn morguninn og Linda snýr sér við. Hver er þú spyr Linda

ég get haldið svona lengi áfram

kv

Þórður Ingi

Þórður Ingi Bjarnason, 8.10.2008 kl. 11:55

2 identicon

Þú ert frábær penni Linda

Ég er í kasti hérna

Bið að heilsa Anítu í ruslinu

Knús á ykkur

Pálína (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 12:00

3 identicon

Jæja Linda mín. Ég vona að þú komir um síðir út úr þokunni. En hvað ráðamennina hér á litla Fróni varðar sem hafa verið að villast í þoku undanfarið, þá væri mér sama þó að þeir rötuðu ekki út úr henni aftur og væru þar bara áfram. Hlakka til að sjá ykkur á morgun.

mamma (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 23:30

4 Smámynd: Solla Guðjóns

Skemmtileg færsla og eki skemmir ath.s. Þórðar hana

Solla Guðjóns, 10.10.2008 kl. 11:30

5 identicon

Snilld, og svo satt.

Harpa Hrönn (IP-tala skráð) 13.10.2008 kl. 10:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband