Í leikskóla er gaman......

Já, það er alltaf líf og fjör í leikskóla.  Börnin njóta sín í góðu leikumhverfi og þroskast alhliða undir dyggri leiðsögn leikskólakennara og annars góðs starfsfólks.  Þó svo börnin uni sér yfirleitt vel í leik, þá koma einnig upp árekstrar á milli þeirra.  Þá er mikilvægt að leikskólakennararnir hvetji börnin til að segja satt og rétt frá og veiti þeim stuðning við að leysa sjálf úr ágreiningnum.  Þannig læra börnin smám saman að bera ábyrgð á eigin hegðun og læra að greina á milli þess sem er rétt og þess sem er rangt.  Það er undirstaðan fyrir auknum félagsþroska og hjálpar börnunum þegar þau vaxa úr grasi að takast á við lífið. 

Þar sem ég er í fæðingarorlofi er ég ekki eins mikið innstillt á daglega starfið í leikskólanum.  Ég fæ reyndar innsýn í það í gegnum fimm ára gamla dóttur mína þegar ég sæki hana í leikskólann og spjalla við hin börnin en það er ekki í sama magni og þegar ég er í kennslu sjálf með börnunum. 

Ég hef því orðið þeirrar gæfu aðnjótandi undanfarna daga að fá góða innsýn í leikskólalífið í gegnum fjölmiðla.  Þær miklu hræringar sem verið hafa í kringum Glitni minna mig að mörgu leyti á þær erjur sem koma stundum upp á milli barnanna - með virðingu fyrir börnunum.  Þeir aðilar sem keppast við að segja fjölmiðlum sína hlið á málinu telja sig að sjálfsögðu hafa rétt fyrir sér.  Og fjölmiðlarnir sem eru í hlutverki leikskólakennarans reyna að vega og meta sannleiksgildið í því sem sagt er og beina þannig málinu í réttan farveg. 

Auðvitað veit ég að þetta er háalvarlegt mál og fjöldi einstaklinga og fyrirtækja eiga um sárt að binda vegna mikils taps á hlutabréfum.  Ef það er satt að einn valdamikill maður sem eitt sinn stjórnaði landinu okkar en stjórnar nú peningunum okkar grípi til svo stórra aðgerða því hann vilji leggja einhvern í einelti, þarf svo sannarlega að fylgja því máli eftir.  Því eins og í leikskólanum, þá er hætt við því að þeir sem komast upp með að leggja í einelti, haldi því áfram og það verði sífellt verra.  Á sama hátt má segja að ef sá sem klagar yfir að vera strítt en var svo bara að plata, þá er líklegt að næst þegar hann segir að einhver hafi verið að stríða honum verði orð hans tekin með fyrirvara. 

Já, löng er litlum þroska leiðin upp til manns, sagði Jón Magnússon eitt sinn.  Hvort sem þeir sem eiga í þessari deilu hafi verið sjálfir í leikskóla eða ekki, þá vona ég að þeir öðlist fljótt þann þroska sem þarf að liggja til grundvallar því að upplýsa okkur hin sem fylgjumst með þessu um hvað sé rétt og hvað sé rangt í þessu alvarlega máli þannig að við getum myndað okkar eigin skoðun á því.


Mamma, af hverju er sumt fólk vont?

Yndislegi átta ára gamall sonur minn spurði mig þessarar spurningar í gær.  Ég hafði verið að lesa tölvupóst sem ég fékk sendan þar sem fólk var hvatt til að senda áfram mynd af Madeleine McCann sem hvarf á síðasta ári.  Sonur minn sá myndina af henni og spurði hver þetta væri.  Ég útskýrði fyrir honum að þessi stúlka hefði horfið og verið væri að leita að henni.  Drengurinn varð samstundis miður sín yfir þessu og fannst honum þetta það hræðilegasta sem gæti komið fyrir nokkurt barn að vera viðskila við foreldra sína.   Ýmsar tilgátur komu hjá honum um hvernig hún hefði horfið en í öllum þeim átti vont fólk hlut að máli.  Hann átti hins vegar bágt með að skilja að það væri til svo vont fólk að það tæki börnin frá foreldrum sínum og spurði mig svo að ofannefndri spurningu í kjölfarið. 

Það er ekki skemmtilegt að leiða barnið sitt í sannleikann um að heimurinn er ekki alltaf eins fagur og það hefur haldið.  Sonur minn er sjálfur svo einstaklega blíður og góður við alla og má ekkert aumt sjá.  Fyrir jólin í fyrra fór hann með pening sem hann hafði safnað sjálfur í Rauða Krossinn svo hægt væri að hugsa vel um fátæku börnin.  Hvernig útskýrir maður þetta fyrir börnunum sínum?  Ég reyndi að útskýra fyrir honum að víða í heiminum væri svo mikill fólksfjöldi að virðingin fyrir hverju og einu mannslífi væri minni og því væri minna hugsað um hvern einstakling fyrir sig. 

Hvort sem þetta er rétt hjá mér eða ekki þá tel ég okkur heppin að búa á Íslandi.  Þrátt fyrir hrikalega óhagstætt gengi krónunnar og að hérna leynist líka ,,vont'' fólk þá megum við þakka fyrir fámennið.  Við metum hvert mannslíf að verðleikum og við höfum svo mörg tækifæri til að ná okkar markmiðum.  Þetta finn ég enn betur hér á Hólum - í samfélagi þar sem rúmlega 100 manns eru með fasta búsetu allt árið um kring og rúmlega 100 nemendur bætast við yfir vetrartímann.  Hver og einn einstaklingur fær að njóta sín eins og hann er og allir þurfa á hverju öðru að halda.  En það er erfitt að svara spurningu sonar míns svo vel sé því sjálf skil ég ekki af hverju sumt fólk er vont. 


FH - skorum og vinnum þennan leik.........

Það var skemmtileg stemning á heimilinu í gær þegar við fylgdumst spennt með leik FH og Keflavíkur í Landsbankadeildinni.  FH þurfti nauðsynlega á sigri að halda til að eiga séns á Íslandsmeistaratitlinum meðan Keflavík gat tryggt sér hann með jafntefli.  Þar sem við búum á svæði þar sem Stöð tvö næst ekki og þar af ekki Stöð tvö sport heldur, var ekki möguleiki að sjá leikinn í sjónvarpinu.  Við sátum því við útvarpið og hlustuðum á lýsinguna á Rás tvö jafnframt því sem við höfðum tölvuna við höndina og fylgdumst með lýsingunni á Mbl.

Þessi rúmlega tvö ár sem við höfum búið hér á Hólum hafa nú verið mjög góð þrátt fyrir að hafa ekki um aðra sjónvarpstöð að velja en sjónvarp allra landsmanna.  Þegar við fluttum hingað höfðum við verið áskrifendur að Stöð tvö í mörg ár og áttum okkar uppáhaldsþætti þar.  Einnig voru margir skemmtilegir þættir á Skjá einum sem við fylgdumst reglulega með.  Auk þess vorum við orðin nokkuð flink að nýta okkur Stöð tvö plús og þannig var alltaf um nóg sjónvarpsefni að velja og sjónvarpskvöldið stundum skipulagt fyrirfram. 

Það voru því óneitanlega viðbrigði að flytja hingað og hafa einungis eina stöð og ekkert plús eða extra dæmi í boði.  En við vöndumst því fljótt.  Það eru margir góðir þættir á RÚV sem við fylgjumst með.  Og ef við viljum ekki horfa á það sem er í boði í sjónvarpinu, þá einfaldlega slökkvum við á því og tökum upp spilin eða gerum eitthvað annað skemmtilegt í staðinn.  Við erum líka alveg laus við valkvíða um hvað á að horfa á.  Það sem mér finnst þó skemmtilegast við þetta er að reglulega hringja sölumenn og bjóða okkur áskrift að Stöð tvö.  Svarið er alltaf á reiðu; endilega - byrjið bara á því að setja upp sendi fyrst!   

Það koma dagar sem ég vildi að ég gæti horft á Stöð tvö.  Einn af þeim dögum var í gær.  Það hefði verið frábært að geta séð þennan spennandi leik í sjónvarpi auk þess sem sýningar hófust á Dagvaktinni.  En það er ekkert annað í stöðunni en að bíða eftir DVD útgáfunni af þáttaröðinni og treysta á útvarpið og Mbl í íþróttalýsingunum. 

Svo má geta þess að lokum að leikurinn í gær var alveg frábær og FH-ingar sýndu svo sannarlega hvað í þeim býr- hvílíkt baráttuþrek að geta gert út um leikinn á ögurstundu.  Nú er bara að vona að þeir klári þetta og bæði FH og Fram standi sig í leikjunum sem eftir eru! 


Í rigningu ég syng

Kannski er ég svona skrýtin, en ég elska rigningu.  Mér finnst yndislegt að vera úti, þokkalega vel klædd og ganga um í rigningunni.  Að vera í tjaldi og finna rigninguna dynja á tjaldinu er líka yndislegt - að undanskildu fyrsta skátamótinu mínu þegar við vinkonurnar vorum með 2ja manna tjald með sex manna himinn - það var ekki alveg að virka og flúðum við í sjúkratjaldið þegar allt var komið á flot, enda vorum við á Vormóti í Krísuvík sem er rómað fyrir rigningu. 

Hrifning mín af rigningu jókst til mikilla muna þegar við fluttum hingað í sveitina.  Húsið sem við búum í er alveg við skógarjaðarinn og lyktin af gróðrinum er engu lík eftir góða vökvun af himnum ofan.  Það versta við rigninguna finnst mér þó hvassviðrið sem stundum fylgir með - þá er ekki alveg eins gaman úti.

Það er reyndar ekki rigning í augnablikinu hér á Hólum, en það er búið að vera mjög hvasst.  Ég og börnin mín fjögur erum öll inni og keppumst um að hafa það sem mest kósý.  Allir grunn- og leikskólar á þessum landshluta eru lokaðir í dag vegna haustþings starfsmanna þeirra og því höfum við það ótrúlega gott.  Playmokassinn var tekinn niður úr skáp í morgun og svo er ég nú þegar búin að horfa á eitt leikrit í tveimur þáttum.  Börnin mín eru upprennandi leikarar.  Næst verða líklega litabækur og litir sett á borðið og hlustað á einhver skemmtileg ævintýri af geisladiski.  En nú mallar grjónagrautur á hellunni því það er fátt notalegra en að gæða sér á heitum graut í þessu ,,blíðskapar'' veðri.

Góðar stundir 


Hvar geymir þú mestu verðmætin þín?

Þessi fyrirsögn var á auglýsingu sem ég sá fyrir nokkrum árum - mig minnir að það hafi verið hjá ungliðahreyfingu einhvers stjórnmálaflokks en vil ekki sverja fyrir það.  Fyrir neðan fyrirsögnina voru svo borin saman laun bankastjóra annars vegar og leikskólakennara hins vegar.  Mér fannst þetta mjög sláandi auglýsing á sínum og tíma og finnst það enn.  Eins og allir vita eru bankastjórar á margfalt hærri launum fyrir að passa upp á peningana og skuldirnar okkar en við leikskólakennararnir sem verjum stórum hluta dagsins með börnunum - framtíð Íslands.  Laun ættu að sjálfsögðu að endurspegla mikilvægi þess starfs sem maður sinnir og þeirri ábyrgð sem á starfinu hvílir en það er ekki alltaf samhengi þar á milli.

Mér var hugsað til þessarar auglýsingar um daginn þegar bregðast átti við verkfalli ljósmæðra með því að setja lögbann á það.  Þetta var sem sagt sú leið sem átti að fara til að leysa málið.  Miklu auðveldari leið greinilega heldur en að leiðrétta launin hjá þessari mikilvægu starfstétt.  Það vita allir hversu mikilvægt starf ljósmæður inna af hendi.  Það er engin tilviljun að ungbarnadauði og lát kvenna við fæðingu hafa minnkað margfalt.  Þegar ég fæddi yngri dóttur mína í júní sl. þurftu tvær ljósmæður auk barnalæknis að vera viðstaddar og ekki veit ég hvernig hefði farið ef þeirra hefði ekki notið við.

Á hátíðar- og tyllidögum talar ríkisvaldið um mikilvægi þess að búa vel að æsku landsins svo upp vaxi kynslóð sem er full af eldmóði og nýtir sér kraft sköpunar og sjálfstæðis.  En til að þetta geti átt sér stað þarf í fyrsta lagi að búa svo um hnútana að þeir sem taka á móti þessum einstaklingum í heiminn séu metnir að verðleikum.  Þegar leikskólaganga barnanna hefst þurfa svo að vera til staðar kennarar sem hvetja börnin til að nýta sína hæfileika.  Og foreldrarnir sem eru þeir allra mikilvægustu í lífi barnanna þurfa að geta eytt miklum tíma með börnunum sínum í stað þess að þurfa að vinna allt of langan vinnudag.  Þegar hátíðar- og tyllidögunum er lokið og fólk vill fá þessi mikilvægu störf metin að verðleikum, breytist hins vegar hljóðið í strokknum og orðið verðbólga heyrist oft.

Já, hvar geymir þú mestu verðmætin þín?  Þau viðhorf sem við höfum til þessara mikilvægu stétta sem sinna börnunum okkar skipta miklu máli.  Nú þurfa ljósmæður á öllum stuðningi að halda á sama hátt og við foreldrar fengum frá þeim til að koma litlu krílunum okkar í heiminn - heiminn sem þau ætla að sjálfsögðu öll að sigra.


....Ljóminn á skilið það lof sem hann fær.........

Ég tek svo sannarlega undir það enda afbragðssmjörlíki þar á ferðinni sem verður yfirleitt fyrir valinu þegar ég kaupi mér smjörlíki.  En ef Ljómann þú bræðir og Ljómann þú snæðir mun Ljóminn að eilífu valda ofþyngd niðr'í tær.

Fyrst ég minnist á smjörlíki skal þess getið að ég hef misst ellefu og hálft smjörlíkisstykki af mér á tveimur vikum sem samsvarar 5,7 kg.  Það fóru sem sagt 600 gr. þessa vikuna og er það alveg ásættanlegur árangur.  Það jafnast auðvitað ekki á við fimm komma eina kílóið sem hvarf í síðustu viku - enda ekki hægt að bera það saman.  Það er samt ótrúlegt hvað vigtin sveiflast mikið upp og niður.  Ég prófaði í morgun að vigta mig þrisvar sinnum og alltaf kom sitthver niðurstaðan og rokkaði vigtin um 2 kg hvorki meira né minna.  Ég heft lagt það í vana minn að vigta mig þegar ég er nývöknuð og búin að losa mig við vökvasöfnun næturinnar og mun ég halda mig við það þó svo ég hafi verið léttari í þriðju vigtun.   Ég er hætt að vigta mig daglega eins og ég gerði gjarnan áður því að sama skapi rokkar vigtin milli daga.

Auðvitað er ég svekkt yfir að hafa bætt mikið á mig á meðgöngunni þegar ég var búin að ná svona góðum árangri en það þýðir ekkert að liggja í smjörlíkinu þangað til það storknar heldur er málið að rífa sig upp úr því og losa sig við það.  Ég lýsi því ekki eftir týndu smjörlíkisstykkjunum og engin fundarlaun eru í boði!

Annars er allt gott að frétta úr sveitinni.  Malbikið varð reyndar að bundnu slitlagi en mér sýnist að tími stórgrýtisins sé endanlega úr sögunni.


.......Ríðum heim til Hóla.........

Í rúmlega 1100 ár hefur verið riðið heim til Hóla en ljóðið eftir Guðmund Guðmundsson skólaskáld hefur verið til í kringum 100 ár.  Vegirnir heim að Hólum hafa tekið breytingum í gegnum aldirnar eins og eðlilegt er og fræg er leiðin yfir Hríshálsinn þar sem farið var með jarðneskar leifar Jóns Arasonar og sona hans.

Þessar upplýsingar koma þessu bloggi bara takmarkað við - en þó.  Nú er loksins verið að undirbúa malbikun á heimreiðinni okkar á Hólum.  Brátt verða tímar óvenju mikils hristings á leiðinni upp og niður brekkuna á enda og við tekur tímabil þægilegra ökuferða. 

Ég er handviss um að Elsa Margrét flýtti sér í heiminn fyrir settan dag eftir eina slíka ferð upp brekkuna þar sem mörg stórgrýtin hafa dvalið.  Reyndar hef ég lúmskan grun um að Þórður hafi í því tilfelli keyrt óvenju greitt upp brekkuna með okkur mæðgur.  Hann vildi ólmur vinna kapphlaupið við bróður sinn og konu hans sem hafði fyrr um morguninn misst legvatnið og vænti fæðingar á hverri stundu.  Stórgrýtti vegurinn hafði svo sannarlega sín áhrif því litla daman fæddist með hraði nóttina eftir en litli frændi hennar kom sólarhring seinna - enda bara malbikaðir vegir í Kópavogi!

En nú heyrast drunur í stórum vinnuvélum og það er greinilega allt að gerast.  Þeir sem eru farnir að bíða eftir að litla krílið þeirra fæðist verða því að leita að öðrum heimreiðum.  


.........og allir komu þeir aftur.......

Já, þeir komu aftur en þeirra var ekki sárt saknað - blessaðir keppirnir!  Þegar líkamsvöxtur minn stefndi sem mest vestur til Ameríku snéri ég mér austur til Danmerkur í matarræðinu.  Árangurinn var mjög góður.  Eftir meðgönguna hafa hins vegar þessir umræddu keppir snúið til baka á líkama minn - en ekki til langdvalar - ó nei! 

Ég hef formlega lokið fyrstu vikunni á danska matarræðinu með ágætisárangri þrátt fyrir óhóflegt pizzuát í Hólaskóla sl. fimmtudagskvöld.  Það fuku hvorki meira né minna en 5,1 kg á einni viku takk fyrir!

Ég geri mér þó fyllilega grein fyrir að líklega munu ekki svo mörg kíló fara af vikulega - en frábær hvatning engu að síður.

En nóg um það, ég ætla að njóta sólarblíðunnar og hitans hér á sælureitnum fagra.


Hænan og eggið

,,Ég ætla að kenna þér að vera prinsessa.''  Þessi orð lét fimm ára gömul dóttir mín falla í morgunsárið í garð tæplega þriggja mánaða gamallar systur sinnar sem lá með galopinn augun og mændi á stóru systur sína með aðdáun.  Þetta var það allra fallegasta sem henni datt í hug að segja við systur sína þar sem hún er sjálf prinsessa að eigin sögn og tiplar á tánum í balletfötum og elskar flest allt sem er bleikt á lit.  Mér finnst mjög gaman að velta því fyrir mér hvað í fari barnanna er lært og hvað er meðfætt.  Drengirnir mínir eru ólíkir hvor öðrum en fimm ára systir þeirra er svo allt öðru vísi að svo mörgu leyti.  Ég geri mér alveg grein fyrir því að líklega hef ég styrkt ákveðna hegðun og áhugamál hjá strákunum mínum sem flokkast gjarnan undir strákalegt á sama hátt og ég hef gert öfugt með dömuna. 

En það er spurning um hvort kemur á undan - eggið eða hænan.  Börnin sýna áhuga á ákveðnum þáttum sem ég tel að er þeim meðfætt og sem foreldri styrki ég það sem þau hafa áhuga á.  Svo á móti þá sýna börnin áhuga á því sem fyrir þeim er haft og þannig læra þau frá umhverfinu.  Þessar pælingar er hægt að skoða aftur á bak og áfram án þess að nokkur niðurstaða fáist í þetta.  En með níu ára reynslu sem leikskólakennari og fjögurra barna móðir þá vil ég halda því fram að hvert barn er einstakt á allan hátt og því nauðsynlegt að það fái að vera það sjálft, hvort sem hegðun og áhugamál flokkist sem ,,strákaleg'' eða ,,stelpuleg'' - ef við á annað borð teljum okkur þurfa að flokka eftir kyni.  Hins vegar er það staðreynd að kynin eru ólík og það eiga þau líka að fá að vera. 

Svo verður gaman að fylgjast með hvað pínulitla krílið verður, verður hún prinsessa, smiður eða Star Wars fígúra - eða eitthvað allt annað?


Tína má, berjablá

Fyrsta næturfrostið varð að veruleika hér á Hólum síðastliðna nótt.  Bílrúðurnar voru hélaðar í morgunsárið og gaddfreðinn pollur lá yfir bílkerrunni þegar Þórður arkaði með Anítu í leikskólann fyrr í morgun.  Það kom sér aldeilis vel að við erum búin að byrgja okkur vel upp af berjum.  Við fórum í tvo leiðangra og uppskárum helling af girnilegum bláberjum og flennistórum krækiberjum.  Seinni berjamóaleiðangurinn var farinn í gær með nesti og tilheyrandi í blíðskaparveðri.  Meðan ég og Bjarni tíndum berin samviskulega ofan í dollur, fannst Anítu betra að borða þau jafnóðum.  Sindri var mjög ákveðinn í tínslunni og bætti reglulega við bláberjum eða krækiberjum í boxin hjá okkur.  Það kom þó að því að þolinmæðin var á þrotum hjá honum og ákvað hann að tína upp í sig.

Eftir fyrri berjaleiðangurinn okkar hafði Sindri borðað heil ósköp af berjum sem endaði með því að hann ældi þeim á gólfið í mörgum kröftugum gusum og var gólfið fallega fjólublátt hjá okkur fyrir vikið.  Ekki virtist hann ætla að endurtaka leikinn eftir síðari leiðangurinn og hrósuðum við happi yfir því.  En það bar svo til þegar við Þórður vorum að fara að sofa að við heyrðum mikinn umgang frá herbergi hans og Þórður leit inn.  Þar var Sindri á fjórum fótum, berjablár í framan og alla leið umhverfis höfuðið hans að eyrunum meðtöldum.  Í mörgum gusum skilaði hann berjunum samviskulega sem hann hafði tínt upp í sig með þeim afleiðingum að það var gjörsamlega allt fjólublátt í kringum hann.  Dagurinn í dag fer því í að þrífa allt herbergið hans, dýnuna, sængina og púða.  Kauðinn liggur hins vegar í rúmi foreldra sinna og lætur dekra við sig meðan hann jafnar sig eftir átök næturinnar. 

Hugleiðing:  Við foreldrarnir fórum með Elsu í ungbarnaeftirlitið um daginn þar sem hæð og þyngd var mæld með hefðbundnum hætti.  Þegar skoðun var lokið og í ljós kom að hún var búin að sprengja skalann af völdum mikillar mjólkurdrykkju, var Þórður vinsamlegast beðinn um að fara fram og klæða hana meðan ég átti spjall við hjúkrunarfræðinginn.  Ég átti sem sagt að fylla út listann sem segir til um hvort nýbakaðar mæður séu með fæðingarþunglyndi.  Mikið er ég ánægð með að þessi listi sé til því konur sem eiga við þunglyndi að stríða þurfa nauðsynlega að fá aðstoð sem allra fyrst.  Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort það séu rétt vinnubrögð að hafa svona pukur í kringum þetta og senda makann út.  Þær vinkonur mínar sem greinst hafa með fæðingarþunglyndi eða vott af því hafa allar talað um að með því að pukrast með þunglyndið ein úti í horni þá stuðli maður að fordómum gegn sjúkdómnum.  Auk þess er eðli þunglyndis þannig að maður leitar ekki aðstoðar hjá öðrum og því getur verið lífsnauðsynlegt að maki eða annar nákominn sé vel inni í því hvernig andlega heilsan sé hjá nýbökuðu móðurinni.  Þær ráðleggingar sem konur fá ef þær greinast með fæðingarþunglyndi eða vott af því, ætti að sjálfsögðu að gefa mökunum líka.

Svo mörg voru þau orð


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband