Ísfólkið

Það er orðið langt síðan ég bloggaði síðast.  Málið er að ég er yfirleitt svo eftir mig þegar ég er búin að vera fyrir sunnan.  Ég var sem sagt fyrir sunnan um þar síðustu helgi og átti þar yndislega daga eins og venjulega.  Við vorum bara allt of stutt þar - frá föstudegi til sunnudags.  Ég fékk þó færi á að hitta bestu vinkonurnar og notuðum við tækifærið til að gæsa hana Guggu okkar sem gifti sig í sumar í Svíþjóð og kom okkur þannig á óvart.  Það kom samt ekki til greina að láta hana sleppa við gæsastandið sem við hinar þurftum allar að ganga í gegnum, en við vorum mjög góðar við hana.  Frábær spurninga-ratleikur að hætti Hörpu Hrannar við Hvaleyravatn, magadans, kósý stund í pottinum og girnilegur og bragðgóður matur var dagskrá dagsins og þetta var virkilega skemmtilegt.  Við vorum sem sagt mjög góðar við hana.  Ég get nú ekki sagt að ég hafi fengið eins góða meðferð þegar ég var gæsuð fyrir tíu árum síðan.  Þessar frábæru vinkonur mínar boðuðu mig á snyrtivörukynningu heima hjá Helenu.  Þegar ég kom þangað tók Lína mamma hennar á móti mér og bað mig vinsamlega um að fara í froskabúning takk fyrir sem skipun frá mínum góðu vinkonum.  Auk þess fékk ég strætómiða og brauð í poka.  Ég átti sem sagt að fara í strætó inn í Reykjavík og niður að Reykjavíkurtjörn.  Það vildi svo ,,skemmtilega'' til að það var langur laugardagur og því troðfullur strætó af fólki.  Eins og gefur að skilja vakti þessi búningur óskipta athygli í strætó en það versta var að enginn spurði mig;  ,,bíddu fyrirgefðu - en af hverju ertu í froskabúningi?''  Þess í stað horfði fólk á mig og leit svo undan.  Helst af öllu langaði mig til að standa upp og segja;  ,,sko það er verið að gæsa mig'' en kunni ekki alveg við það.  Þegar að tjörninni var komið og ég búin að gefa öndunum brauðið úr pokanum, komu vinkonurnar skellihlæjandi og létu mig halda áfram að gera mig að fífli.  Það vildi reyndar svo skemmtilega til að ég hitti fagurt blóm við tjörnina en það var hann Þórður minn sem fékk svipaða meðferð frá vinum sínum.  En svo voru stelpurnar líka góðar við mig og dekruðu við mig í lokin.

En það er svo sannarlega mikils virði að eiga góða að þegar maður býr svona langt í burtu.  Þessar yndislegu vinkonur mínar hafa yfirleitt skipulagt saumaklúbb þegar þær vita að ég er að koma þannig að ég hef færi á að hitta þær allar í einu.  Það er nefnilega þannig að þegar við komum suður er svo margt sem þarf að gera.  Við viljum auðvitað hitta sem flesta og svo þarf alltaf að útrétta ýmislegt sem við getum ekki gert fyrir norðan.  Síðan má ekki gleyma því að við viljum líka geta átt tíma með fjölskyldum okkar í rólegheitunum og þá er tíminn yfirleitt orðinn naumur. 

Eins og það er nú gott að koma suður og hitta alla, þá er líka erfitt að kveðja.  Þó okkur líði öllum vel hér norðan heiða og við höfum haft færi á að eignast fjölmarga góða vini, þá er erfitt að vita af fjölskyldunni svona langt í burtu.  En ég tel okkur þó kunna vel að meta það sem við eigum og við erum þakklát fyrir að eiga svona marga góða að.  Það er ekki síður núna á þessum erfiðu tímum sem dynja yfir okkur að ég finn fyrir mikilvægi þess að eiga góða vini og yndislega fjölskyldu.  Því þrátt fyrir versnandi efnahag þá verða sterk fjölskyldu- og vinabönd ekki tekin frá okkur.  Og þó ég hafi talið mig kunna vel að meta það sem ég á og vera þakklát fyrir það þá finn ég það enn betur núna.

Annars er nú alltaf nóg að gera hér og mikið líf og fjör að venju.  Litla krílið náði sér í hita fyrir helgi en er að jafna sig á honum.  Þetta litla yndi sem fæddist með mikið svart hár er að verða sköllótt og mér sýnist að ljósir lokkar muni innan skamms líta dagsins ljós.  Aníta nýtur lífsins sem aldrei fyrr í leikskólanum og óskar sér daglega að það sé dótadagur.  Hún telur sig vera orðna mjög fullorðna - orðin fimm ára - er komin í skólahóp og er alveeeeeeeeeg að verða sex ára!(hún varð fimm í lok ágúst;)) Alla vega reyndi hún af öllum krafti í gærkvöldi að sannfæra okkur foreldrana um að leyfa henni að horfa á Svarta engla.  Henni fannst það alveg sjálfsagt í ljósi þess að mjög fljótlega yrði hún fullorðin.  Svo varð hún fyrir miklum vonbrigðum með að við keyptum engin af hennar rökum og vísuðum henni í rúmið. 

Sindri æfir sig á gítarinn af fullu kappi.  Ég sem hef nú yfirleitt ofurtrú á börnunum mínum var ekki alveg að sjá í byrjun að hann myndi hafa gaman af að æfa á gítar þar sem hann hætti bæði á klarinett og píanó.  En gítarinn virðist eiga vel við hann og hann æfir sig samviskusamlega heima.  Drengurinn er líka duglegur að skjóta á mig í hvert sinn sem ég hrósa honum og segir - og þú hélst að ég myndi ekki æfa mig!  Já, hann kann að spila á samviskuna mína því þetta var í fyrsta og eina skiptið sem ég hef reynt að draga kjark úr börnunum mínum.  Það er frábært að hann fær gítarkennslu í skólanum á skólatíma.  Bjarni Dagur verður táningur innan skamms þar sem þrettán ára afmælið nálgast óðum.  Þessi ,,Longintesh'' er mín táknmynd um hvað tíminn líður hrikalega hratt.  Drengurinn er orðinn töluvert hærri en ég og viti menn - hann er farinn að lesa Ísfólkið!!!!!!  Þessar dásemdarbækur las ég spjaldanna á milli sem unglingur.  Mamma og systur mínar keyptu fyrstu bækurnar og svo hélt ég áfram að safna og nú á ég þær allar 47.  Svo hélt ég úti bókasafni og lánaði vinkonum mínum bækurnar þegar ég hafði lokið við þær sjálf.  Ég eignaðist reyndar ekki alveg allar bækurnar jafn óðum heldur tók ég mig til fyrir örfáum árum að kaupa í gegnum netið þær fáu bækur sem upp á vantaði svo ég ætti heildarsafnið.  Drengurinn sótti kassann með bókunum góðu í bílskúrinn okkar í síðustu suðurferð og hugsar sér nú aldeilis gott til glóðarinnar - nóg að lesa framundan!  Svo er aldrei að vita nema ég fari að lesa þessar bækur aftur - það er nú aldeilis langt um liðið þó það sé mér í mjög fersku minni.

Talandi um Ísfólk þá líður mér sem slíku í öllum snjónum hér á Hólum.  Það er allt orðið hvítt og enn bætir í.  Það er einstaklega fallegt á að líta og öll fallegu grenitrén sem eru við húsið okkar eru aldeilis komin í jólafötin.

Já svo mörg voru þau orð- verið góð við hvert annað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alltaf gott og gaman að lesa bloggið þitt Linda mín þú er alveg frábær penni og alltaf jákvæð. Það er góður eiginleiki á þessum tímum

mamma (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 13:19

2 Smámynd: Guðrún Ólafía Brynleifsdóttir

Já segi það sama, dáist af þér jákvæða kona :-) Knús og kossar

Guðrún Ólafía Brynleifsdóttir, 23.10.2008 kl. 15:02

3 identicon

Ég er nú einmitt búin að sýna henni Maríu dóttur minni þessar snilldarbækur og ég hélt hún mundi "detta" ofan í þær eins og ég gerði... Hún las hálfa fyrstu bókina og fannst hún ekkert skemmtilegt... Hmmm, hún kann greinilega ekki gott að meta

Við erum líka búin að kaupa allar bækurnar

Anna Sigga (IP-tala skráð) 26.10.2008 kl. 12:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband