Rjómi

Uppáhaldskennarinn minn í grunnskóla sagði eitt sinn við mömmu í foreldraviðtali að ég væri algjör rjómi.  Hann átti við það að mér gengi vel að öllu leyti - enda segir það sig sjálft að rjóminn er auðvitað toppurinn á öllum mjólkurafurðum - ekki satt?  Rjóminn er því góður mælikvarði fyrir eitthvað sem er gott og það hlýtur því að vera mjög slæmt að vera undanrenna. 

Þessi frábæri kennari minn var ekki uppáhaldskennarinn minn vegna þess sem hann sagði um mig, heldur hvatti hann okkur óharðnaða unglinganna til að vera stolt af okkur sjálfum - hvernig sem við værum.  Þessi hvatning hans náði án efa einnig til FH- inganna sem tileinkuðu honum fyrsta Íslandsmeistaratitil sinn í fótbolta haustið 2004.  Hann lést um vorið sama ár.

Já rjóminn er fín mælieining.  Ég ætla alla vega að nota þennan mælikvarða til að upplýsa að nú hef ég tapað sem samsvarar 49 pelum af rjóma eða 12, 3 kg.  Það er alveg ásættanlegur árangur frá 1. september að mínu mati.  Þetta gengur bara bærilega og nú er ég byrjuð í boot-camp tvisvar í viku.  Það er ótrúlega gott að fá auka hreyfingu og vekja um leið aftur til lífsins vöðva sem ég kynntist fyrir rúmu ári síðan en hafa svo legið í dvala. 

Ég sé ekki eftir þessum rjómapelum og lýsi því alls ekki eftir þeim.  Vonandi munu þeir bara halda sig sem lengst í burtu frá mér hér eftir og fleiri rjómapelar tapast.  En hins vegar er lífið auðvitað hinar ýmsu mjólkurvörur - oft nýmjólk , stundum léttmjólk, sjaldan undanrenna en oftast algjör rjómi!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

mmmmmmmmmm, rjómi er góður.

Harpa Hrönn (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 08:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband