Elsa Margrét eins árs

Litla, yndislega stúlkan mín með fallegu bláu og stóru augun sín er eins árs í dag.  Það er með ólíkindum hversu hratt þetta fyrsta ár í lífi hennar hefur liðið.  Hér koma myndir af henni frá fyrsta árinu hennar.

20080713143614_0   Nýfædd  

20080713135126_0 1 mánaða

                                                          

 

20080812133147_1    2ja mánaða    

20080917143049_17    3ja mánaða

20081023092408_0   4 mánaða        

20081125093508_0    5 mánaða

                                                  

20081211182140_1 6 mánaða                                                    

20090122152725_0  7 mánaða

20090215151651_1 8 mánaða                                                

20090315162632_0  9 mánaða

20090420193400_1 10 mánaða                                               

20090601012315_0   11 mánaða

IMG_6475

                                                         1 árs

Í tilefni 1 árs afmæli dömunnar er tilvalið að rifja upp fæðingarsöguna:

Þriðjudaginn 10. júní fórum við Þórður í mæðraskoðun á Króknum.  Ég var komin 39 vikur og orðin mjög þreytt á því að geta ekkert hreyft mig lengur.  Það var því gott að komast í nálarstungur sem ljósmæðurnar höfðu boðið mér upp á síðustu vikurnar í mæðraskoðunum.  Grindargliðnunin var orðin svo slæm að ég þurfti að stoppa og hvíla mig eftir hver fimm skref sem ég gekk og ferð á Krókinn kostaði það að ég þurfti að hvíla mig það sem eftir var dags.  Samt var það svo að þessi svokallaða hreiðrunarhvöt hafði gert vel vart við sig og ég hafði óendanlega þörf á því að baka og ég lét það eftir mér, börnunum til mikillar ánægju þó svo Þórður væri ekki sáttur við að ég væri að standa í þessu þegar ég þurfti á hvíld að halda! 

Í mæðraskoðuninni kom fram að litla krílið væri ekki búið að skorða sig enn heldur væri það við grindarinnganginn og þrýsti mikið niður.  Það var því mikill þrýstingur bæði upp og niður því nóttina á undan hafði ég lítið sofið vegna mikils brjóstsviða og sat nánast alla nóttina í rúminu.  En Jenný ljósmóðir sagði að ef þessi fæðing myndi byrja eins og hinar þrjár á því að ég missti vatnið ætti mér að vera óhætt að ganga út í bíl og þyrfti ekki á sjúkrabíl að halda þar sem barnið væri komið það neðarlega.

Eftir mæðraskoðunina fórum við í Skagfirðingabúð að kaupa helstu nauðsynjar þar sem kaupstaðarferðirnar á Sauðárkrók eru nýttar í það í leiðinni.  Reyndar ákvað ég að bíða úti í bíl meðan Þórður stökk inn þar sem ég var nú ekki frá á fæti og ekki líkleg til að geta lokið innkaupaferðinni með mikilli reisn.  Þegar Þórður var nýkominn út í bíl hringdi Hinrik bróðir hans.  Hann og Brynja kona hans áttu von á sínu fyrsta barni þann 24. júní, akkúrat viku á eftir okkur, en krílið okkar var væntanlegt á þjóðhátíðardaginn sjálfan.  Hinrik spurði hvort við værum nokkuð komin upp á spítala og fékk það svar að við værum að koma úr skoðun.  Hann spurði þá hvort barnið færi ekki að koma hjá okkur því Brynja hafi verið að missa vatnið og fannst auðvitað kjörið að þeir bræðurnir yrðu samtaka í þessum merkisviðburðum.  Þórður sagði svo við mig eftir á að það yrði nú alveg frábært ef við gætum fætt samtímis á sitthvorum landshlutanum.  Ég gaf nú ekki mikið út á það og bað hann nú vinsamlegast að keyra rólega upp brekkuna heima sem jafnaðist á við Kjalveginn þegar hann var sem verstur og þau myndu eiga sitt kríli á undan okkur. 

En þar hafði ég rangt fyrir mér.  Ég vaknaði aðfaranótt miðvikudags 11. júní kl. 01:31 við mikinn brjóstsviða og teygði mig í brjóstsviðatöflu á náttborðinu.  Meðan ég tuggði töfluna að hætti Dr. Saxa fann ég að eitthvað seytlaði niður fæturna.  Ég vakti Þórð og sagði honum að ég teldi að legvatnið væri farið.  Ég stóð upp og þá kom mikil gusa með grænu gruggugu legvatni og grunurinn var þar með staðfestur.  Þórður hringdi á fæðingardeildina á Akureyri til að láta vita af komu okkar og ljósmóðirin sem hann talaði við ráðlagði sjúkrabíl þar sem legvatnið væri grænt og barnið ekki skorðað.  Í þrjósku minni vildi ég samt sem áður fara á okkar bíl þar sem ég gat ekki hugsað mér að sjúkraflutningsmennirnir þyrftu að halda á mér, það vildi ég ekki leggja á vesalings mennina.  Bjarni Dagur var vakinn upp þar sem hann ætlaði að gæta systkina sinna á meðan við værum á Akureyri.  Þórður setti allt sem taka átti með út í bíl og segir svo ákveðinn að hann vilji að ég fari í sjúkrabíl til öryggis.  Ég ákvað að láta eftir því og Þórður hringdi á bíl kl. 2 sem kom svo um tuttugu mínútum síðar.  Eftir nokkrar umhugsun var það ákveðið að Þórður færi á okkar bíl til að hafa hann fyrir norðan. 

Um leið og ég missti vatnið byrjuðu smá verkir sem voru í fyrstu bara seiðingur.  Þegar sjúkrabíllinn keyrði út Blönduhlíðina jukust verkirnir smám saman en voru óreglulegir og nokkuð vægir.  Þeir voru alla vega ekki verri en það að mér dugði að draga djúpt inn andann í hríðunum og náði þannig að láta sem ekkert væri til að stressa ekki upp sjúkraflutningsmennina að óþörfu.  

Á Öxnadalsheiðinni voru hríðarnar orðnar mjög harðar.  Sá sjúkraflutningamaður sem keyrði ekki hafði setið aftur í hjá mér en sat nú um stund frammi í hjá bílstjóranum og varð því ekkert var við sífellt harðnandi hríðar.  Þegar við komum niður heiðina kom hann aftur í til mín og þá gat ég ekki lengur leynt því hvernig væri ástatt hjá mér.  Sjúkraflutningamaðurinn mældi þrjár mínútur á milli hríða og þær urðu sífellt harðari.  Ég bað hann um að hringja í Þórð til að athuga hvar hann væri staddur en hafði um leið áhyggjur af því að hann færi að keyra of hratt í stressi.  Hann var þá um 10 km á eftir okkur. 

Við Þelamörk voru hríðarnar orðnar það harðar að einungis var mínúta á milli þeirra og var ég orðin áhyggjufull um hvort Þórður myndi missa af fæðingunni sem gæti jafnvel átt sér stað í bílnum.  Þegar inn á Akureyri var komið voru hríðarnar orðnar stanslausar og ekkert hlé á milli.  Öll öndun sem ég hafði vandað mig við á leiðinni var rokin út í veður og vind og hugsaði ég bara um að komast í tæka tíð á spítalann.

Ég náði inn á fjórðungssjúkrahús um 4:05 og þar tók á móti mér ljósmóðir sem mældi strax útvíkkunina sem var orðin sex.  Hún kallaði strax á barnalækni þar sem legvatnið var grænt en það er gert í varúðarskyni.  Þórður kom inn á deild tæplega tíu mínútum síðar og loksins þá fór ég að kvarta yfir hrikalegum verkjum.  Þórður uppgötvaði að hann gleymdi myndavélinni í bílnum og skaust til að ná í hana.  Þegar hann var nýkominn inn aftur var ég að ljúka enn einni hríðinni en um leið og henni lauk fann ég gífurlegan þrýsting og þá sást í kollinn á krílinu. 

Eftir örfáa rembinga fæddist kollurinn á litlu dömunni og barnalæknirinn byrjaði strax að sjúga upp úr henni því enginn grátur heyrðist frá henni.  Ég ýtti á eftir því að klára að fæða hana sem fyrst svo það væri hægt að taka hana og koma henni almennilega í gang.  Hún fæddist kl. 04:31, innan við hálftíma eftir að ég komst á spítalann og þremur tímum eftir að allt fór af stað á Hólum.   Barnalæknirinn var með hana hjá sér í um tuttugu mínútur áður en þreyttir en hamingjusamir foreldrar fengu hana loksins í fangið.

Daman vó 4020 gr eða 16 merkur og var 53 cm að lengd.  Hún var mjög þreytt eftir fæðinguna og tók smá tíma að jafna sig.  Við mæðgurnar ákváðum að liggja sængurleguna á Akureyri þar sem einstaklega vel var hugsað um okkur.  Þórður fór til Hóla seinni part dagsins eftir nokkra hvíld og kom svo daginn eftir með börnin og gistu þau í íbúð við Þórunnarstræti sem hann fékk leigða í gegnum rauða krossinn.  Þannig voru þau öll í nálægð við okkur mæðgur en gátu einnig gert sér glaðan dag með því að fara í sund, bíó og fleira skemmtilegt.

Hvað Hinrik og Brynju varðar þá fæddist þeim sonur fimmtudaginn 12. júní kl. 4:13, nánast akkúrat sólarhring seinna.  Litla daman okkar vildi greinilega ekki leyfa litla frænda að koma á undan sér.


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Tinna

Það er brúsa svipur á henni stelpunni

Tinna, 21.6.2009 kl. 01:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband