jákvæðar fréttir

Eins og við vitum öll eru fréttirnar sem við fáum daglega mjög neikvæðar.  Alltaf þegar maður telur að botninum í þessu efnahagshruni sé náð, þá virðist botninn bara síga meira.  Þetta er helsta umræðuefni okkar hvort sem er í vinnunni, í saumaklúbb eða heima hjá okkur.  Við erum áhyggjufull um framtíð okkar og barnanna okkar, við vitum ekki hverjum á að treysta og hverjum þetta er um að kenna.  Það versta er að við vitum ekki hvað bíður okkar.  Margir eiga um mjög sárt að binda og nú þurfum við frekar en nokkru sinni áður að standa saman og hugsa vel hvert um annað.

Ég hef alla tíð verið mikil Pollýanna sem lýsir sér helst í því að ég reyni að líta á jákvæðu hliðarnar á hlutunum eins mikið og mögulegt er.  Þessi Pollýönnuhugsunarháttur getur komið sér vel og dempað þau áföll sem dynja yfir mann.  Hins vegar verður að passa sig að fara ekki í einhverja afneitun og láta eins og ekkert sé.

Ég fann meðal annars jákvæða frétt á netinu um daginn.  Fjallað var um að kirkjusókn Íslendinga hefur aukist á síðastliðnum vikum.  Ég veit ósköp vel að það kemur ekki til af góðu því fólk er að leita sér sáluhjálpar eða frið fyrir öllu áreitinu í kringum okkur.  En mér finnst mjög jákvætt að fólk leiti til kirkjunnar.  Sjálf hef ég aldrei talið mig neitt ofsalega trúaða en barnatrúin mín er enn í góðu gildi. 

Börnin mín eru svo heppin að sóknarpresturinn kemur  á viku- til hálfsmánaðarfresti í leikskólann og grunnskólann og fræðir þau um Jesús.  Með fræðslunni læra börnin um þann boðskap sem Jesús hafði fram að færa og á enn þann dag í dag fullt erindi til allra burtséð frá því hversu trúaðir þeir eru.  Þessi boðskapur skilar sér til barnanna því þegar þau koma heim leggja þau mér lífsreglurnar á hátíðlegan hátt - ,,þú mátt ekki stela!'' - ,,allir eiga að hjálpa hverjum öðrum!'' - ,,við eigum alltaf að segja satt!" Þetta eru örfá dæmi um hversu vel þessi lífsgildi sem við teljum sjálfsögð hafa skilað sér til barnanna.  Það væri óskandi að þeir sem bera ábyrgð á því hvernig komið er fyrir íslenska efnahagskerfinu hefðu þessi sömu lífsgildi að leiðarljósi - þá værum við örugglega í betri málum. 

En við eigum svo sannarlega að halda áfram að trúa á allt það góða og yndislega sem lífið hefur enn upp á að bjóða.  Þó það komi ekki fram í fréttunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Enn ein snilldarritgerðin frá þér Linda mín. Og það er sannarlega satt að við getum fengið alveg nóg af öllum vondu fréttunum, en það er líka ýmislegt gott að gerast en fellur alveg í skuggann af öllu því neikvæða. Við getum lítið gert í því sem orðið er nema vona að allt fari á besta veg að lokum . Reynum að þreyja þorrann, en alls ekki gleyma að horfa á björtu hliðarnar. Við höfum líka gott að því að læra að hugsa öðruvísi og ekki taka öllu sem sjálfsögðum hlut. Ég trúi því að við rísum upp á ný sem sterkari og vitrari þjóð og hættum að vera þetta bananalýðveldi sem við höfum verið í augum annarra þjóða (þótt sumar hafi nú ýmislegt á samviskunni, að a.m.k. þeir sem eru og hafa verið þar í forsvari). Hvað með það, barnabörnin mín öll með tölu eru mitt ríkidæmi, sem og fjölskyldur þeirra. 

Kveðjur til ykkar Hólamanna og ég hlakka til að sjá ykkur í desember.

mamma (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 14:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband