Þakklæti

Jæja, aldeilis kominn tími á nýtt blogg.  Nýja árið komið vel af stað, reyndar með veikindum á heimilinu.  Eftir einstaklega yndislega jólahátíð þá herjaði gubbupest á alla heimilismeðlimi með tilheyrandi afleiðingum.  Aníta og Bjarni fengu pestina fyrst, svo heilsuðu Sindri og Elsa nýja árinu með uppköstum og svo lokuðum við hjónin hringnum með því að vera gubbandi fyrstu daga ársins.  En við skruppum suður um daginn yfir helgi og áttum ljómandi góðar stundir með fjölskyldunni.  Alltaf jafn gott að koma suður en alltaf jafn erfitt að kveðja og halda heim á leið.  Nú eru Aníta og Sindri búin að næla sér í hita og hósta og flatmaga í foreldranna rúmi og láta dekra við sig meðan litla krílið heldur áfram að æfa sig á gólfinu og skjóta sér horna á milli.  Hún er byrjuð að fá graut sem henni líkar ágætlega og sættir sig við gulrótarmauk.  Ávaxtamaukið vill hún hins vegar ekki fá.  Fyrsta tönnin brýst í gegn líklega á næstunni og hún segir mammmmmmmma, mammmmm allan daginn. 

Fyrir jólin 2007 flutti ég hugvekju í Hóladómkirkju þar sem ég fjallaði meðal annars um hversu þakklát við mættum vera fyrir að búa á Íslandi.  Þá höfðu nýlega borist gögn um það að mestu lífsgæðin væru hér á landi og Ísland því best í heimi.  Með þessum titli fælist þó sú ábyrgð að hlúa að þeim sem hefðu það ekki eins gott og við.  Ég veit ekki hvar Ísland myndi skora á sama lista núna því samfélagið eins og við höfum alltaf þekkt það hefur tekið miklum breytingum á undanförnum mánuðum.  Þessar breytingar á samfélaginu snerta okkur öll á einhvern hátt og sumir eiga mjög erfitt vegna þeirra.

En þó að Ísland sé ekki endilega lengur best í heimi þegar kemur að efnahagsmálum og ótrúlega furðulegum aðgerðum ríkisvalda finn ég enn fyrir miklu þakklæti fyrir að búa á Íslandi.  Ég er þakklát fyrir að búa ekki á Gaza þar sem fjöldi saklauss fólks lætur lífið vegna trúarbragða.  Þakklát fyrir að búa ekki í einhverju þeirra fjölda landa sem ríkir vatnsskortur heldur get skrúfað frá krananum og drukkið eins mikið vatn og ég vil.  Þakklát fyrir að búa ekki í Ameríku þar sem ég get verið handtekin fyrir að skilja barnið mitt eftir úti í vagni.  Þakklát fyrir að búa ekki í Kína þar sem ég mætti einungis eiga eitt barn.  Þakklát fyrir að búa ekki í svo fjölmennu landi að hvert mannslíf er lítið metið.  Þakklát fyrir að veikindin sem herja á heimilið eru bara gubbupest og flensa.

Með kæru þakklæti


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svo mörg voru þau orð, og það má ábyggilega tína fleira til. En það eru vissulega margir sem búa við verri skilyrði en við Íslendingar.

mamma (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 13:58

2 identicon

Og þakklát fyrir að vera í skemmtilegasta saumaklúbb norðan alpafjalla ;-) er það ekki.

Harpa Hrönn. (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 23:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband