Lítill drengur ljós og fagur

,,Óðum steðjar að sá dagur, afmælið þitt kemur senn.  Lítill drengur ljós og fagur, lífsins skilning öðlast senn.''  Mér verður alltaf hugsað til þessa fallega texta þegar synir mínir tveir eiga afmæli.  Kannski vegna þess að þeir eru báðir svo ljósir yfirlitum og auðvitað einstaklega fagrir.

Það var fyrir þrettán árum síðan að ég fékk það mikla og stóra hlutverk að verða móðir.  Áætlaður fæðingardagur var 12. nóvember og við Þórður vorum enn í vikulegri foreldrafræðslu.  Fimmtudagskvöldið 26. október fórum við einmitt með öðrum væntanlegum foreldrum úr þeim hópi upp á Landspítala að skoða fæðingar- og sængurkvennadeildina.  Flestir skoðuðu aðstæður annars hugar því hugur allra var á Flateyri þar sem snjóflóð hafði fallið nóttina á undan og ljóst að margir höfðu týnt lífi.  Að vettvangsferð lokinni fengum við okkur ís og leigðum okkur gamanmynd á Skalla - það veitti ekki af að létta lundina eftir hörmungafréttir.

Morguninn eftir vaknaði ég við að legvatnið var farið.  Ég hringdi í Þórð sem farinn var í vinnu og hann brunaði heim, sótti mig og saman fórum við upp á spítala.  Þar sem engir verkir voru, var ætlunin að senda mig heim.  Ég tók það ekki í mál þar sem barnið var ekki búið að skorða sig í síðustu skoðun á undan og fékk því að bíða.  Það var ekki fyrr en um kvöldið sem fyrstu verkirnir komu og jukust þeir hægt en kröftuglega.  Ég var hvött til að ganga um og gerði ég eins og mér var sagt - enda einstaklega vel upp alin;)

Það var svo kl. 01:56 aðfaranótt fyrsta vetrardags, laugardagsins 28. október 2005 sem litli fallegi strákurinn minn fæddist.  Naflastrengurinn var þétt vafinn um hálsinn þar sem hann hafði ekki verið skorðaður í grindinni og hann þurfti súrefni auk þess sem soga þurfti upp úr honum.  Það vildi hins vegar svo til að súrefnið virkaði ekki og stofan fylltist af fólki sem svo hljóp með hann fram.  Þegar búið var að koma litla anganum almennilega í gang var hann í hitakassa í um klukkustund svo hann gæti jafnað sig.  Svo fékk ég litla kútinn loksins í faðminn, mjúka og hlýja ljóshærða drenginn minn.

Enn þann dag í dag er sonur minn ljóshærður, mjúkur og hlýr.  Hann er hins vegar ekki lítill lengur, orðinn töluvert hærri en ég og er að jafna pabba sinn - sem reyndar þarf ekki mikið til!  Sem fyrr er drengurinn einstaklega ljúfur og góður og sérstaklega þægilegur í umgengni.  Framundan eru unglingsárin og vona ég bara að hann fari ljúft í gegnum þau.  Sjálfri finnst mér örstutt síðan ég var á svipuðum aldri og hann er nú og það er alveg ótrúlegt hversu hratt tíminn líður.  Það er því svo nauðsynlegt að njóta hvers dags vel og skapa sér um leið góðar minningar.  Þannig getur maður litið sáttur um öxl og verið stoltur af öllu því sem maður hefur áorkað í lífinu - stóru sem smáu.  En hafa þarf hugfast að smáu hlutirnir eru yfirleitt þeir sem skipta mestu máli.

Bjarni Dagur minn, innilegar hamingjuóskir með þrettán ára afmælið þitt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Linda Þú seigir Hann er hins vegar ekki lítill lengur, orðinn töluvert hærri en ég og er að jafna pabba sinn - sem reyndar þarf ekki mikið til! 

ert þú semsagt að seigja að ég sé lítil?  Eitt get ég sagt þér að það eru miklu fleiri kostir fyrir því að vera lítil.  t.d það er styttra að beygja sig niður, Hurðir eru sjaldnast of litlar, Ef lítil maður þarf að ná hærra er til stóll eða trappa.  Aftur á mót stór maður þarf að beygja sig lengra niður, hann þarf alltaf að beygja sig í mörgum hurðum,  er því mjög oft hokinn þar sem lofthæð er ekki alltaf næg.  Þetta eru hlutir sem ég þarf ekki að hafa áhyggjur af. 

Til hamingju með daginn Bjarni dagur

Þórður Ingi Bjarnason, 28.10.2008 kl. 14:19

2 identicon

Litli fallegi strákurinn er sem sé orðinn stór fallegur strákur og 13 ára í þokkabót. Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Áður fyrr mældist tíminn í árum barnanna minna en nú mælist hann enn hraðar í árum allra yndislegu barnabarnanna minna. Þessi strákur er til sóma.

kveðjur til ykkar allra

mamma

mamma (IP-tala skráð) 28.10.2008 kl. 16:22

3 identicon

Til hamingju með daginn.

Þórður  það er alveg rétt hjá þér, betra að vera stuttur í annan endann  ;-)

Harpa Hrönn (IP-tala skráð) 31.10.2008 kl. 11:22

4 identicon

Fæddur 2005? Áttu sem sagt 5 börn og eitt í leynum?

Hólmfríður (IP-tala skráð) 31.10.2008 kl. 16:27

5 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Þetta með árið 2005 þarf ég að fara að athuga eitthvað sem ég veit ekki af.  

Þórður Ingi Bjarnason, 31.10.2008 kl. 23:56

6 Smámynd: Linda Hrönn Þórisdóttir

Að sjálfsögðu átti þetta að vera 1995, biðst innilegrar afsökunar - ég skýli mig á bak við brjóstaþokuna góðu!  Já Þórður þú verður endilega að athuga þetta - það er svo líklegt að það hefði getað farið fram hjá þér

Linda Hrönn Þórisdóttir, 1.11.2008 kl. 00:02

7 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Linda er þetta ekki árið sem ég var sem ég var sem mest að keyra hringferðir og fyrsta árið mitt við Hólaskóla og var því lítið heima.  Svo allt getur verið mögulegt.

Þórður Ingi Bjarnason, 1.11.2008 kl. 18:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband