Jæja, tíminn líður hratt og hraðar en aldrei fyrr. Nú sér brátt fyrir endann á þessum sæludögum í fæðingarorlofi og mun ég skella mér út á vinnumarkaðinn aftur í haustbyrjun. En margt hefur á dagana drifið að undanförnu og var maímánuður sérstaklega viðburðaríkur í lífi stórfjölskyldunnar.
Við skunduðum suður um mánaðarmótin apríl - maí til að ganga frá nýjum leigusamningi fyrir íbúðina okkar og staðfesta þar með áframhaldandi dvöl á Hólum. Auk þess þurftum við að útrétta ýmislegt fyrir ferminguna. Það dugði ekkert minna til en 10 daga reisa í Fjörðinn fagra. Ég tók þátt í að gæsa hana Helenu eina bestu vinkonu mína og fór svo í brúðkaup hennar með Þórði viku seinna. Að því tilefni samdi ég þennan texta við lagið ,,Þá stundi Mundi'':
Í Firðinum fagra ein valkyrja bjó,
í fyrsta sinn hoppaði hún þar í sjó.
Í skátunum Helena lék sér um skeið
og skvettan þá kölluð var Lenus um leið.
Og svo sagði Lenus; ,,Ekki vaðayfir mig,
hann pabbi er lögga og handtekur þig.
Í Skorradal skundaði björgunarsveit,
í skála í nóvember nítíuog eitt.
Um síðkvöld með Bugles í skóginum þar,
mjög skjótt urðu Markús og Helena par.
Og svo sagði Lenus; ,,Markús minn, Markús minn,
ég vil engan annan en þig, skátinn minn.
Saklaus í sveitina Helena fór,
er sveitarpiltsdraumur í vestri var stór.
Á Rauðmelum ástin réð ríkjum hjá þeim
sem reis áfram hærra er komu þau heim.
Og svo sagði Lenus; ,,Markús minn, Markús minn,
ég vil engan annan en sveitarpiltinn.
Nýtt hlutverk fékk Helena marsdaginn einn,
þá hlotnaðist henni einn rauðhærður sveinn.
Nú þrjú eru börnin svo blíð og svo góð
og blönduð þau eru með sjóarablóð.
Og svo sagði Lenus; ,,Út á sjó, út á sjó,
ég vil sigla á skútu, já lengst út á sjó.
Nú dýrlegur draumur brátt rætist hjá þeim,
á dallinum sigla þau lengst út í heim.
Með Sæúlf að vopni skal takmarkið nást,
svo Lenus og Keli nú staðfesta ást.
Og svo segja hjónin;,,Okkar takmark brátt næst,
víst draumarnir geta hjá öllum vel ræst.
Þórður þurfti að sinna ýmsu viðhaldi á íbúðinni okkar áður en hún var afhent nýjum leigjendum og tók það drjúgan tíma meðfram því sem hann undirbjó veigamikla ferðasýningu sem haldin var í Laugardalshöllinni. Þórður og Elsa í íbúðinni okkar
Frænkukvöld Brúsastaðaættarinnar var haldið og mætti ég þar að sjálfsögðu með mömmu og systrum mínum.
Bjarni Dagur fór í fermingarmyndatöku fyrir sunnan og fjölskyldan öll dressaði sig upp og teknar voru líka myndir af allri fjölskyldunni.
Þegar norður var komið hófst lokaundirbúningur fyrir fermingardag frumburðarins. En jafnframt undirbúningnum var nóg að gera hjá fjölskyldunni síðustu dagana fyrir fermingu og auk þess var Bjarni Dagur í prófum alla vikuna og þurfti að sjálfsögðu aðstoð við að láta hlýða sér yfir.
Aníta Sóley útskrifaðist úr leikskólanum með tilheyrandi listasýningu og kaffi og Sindri Gunnar var með kynningu á verkefni sem hann var búinn að vera að vinna að. Bræðurnir spiluðu á tónleikum Tónlistarskólans. Mamma og pabbi voru þá komin norður ásamt Árna Þórði og náðu að horfa á tónleikana.
Aníta Sóley útskrifast úr leikskólanum
Sindri og Hafsteinn með kynningu í skólanum
Daginn fyrir fermingu var afmælisdagur Sindra Gunnars. Slegið var upp veislu fyrir þá fjölskyldumeðlimi sem mættir voru á svæðið auk þess sem flóamarkaður og kaffihús var í grunnskólanum sem auðvitað varð að mæta á. Svo hittum við prestinn, dekkuðum upp, skreyttum kökur og gerðum salinn klárann. Þá var loks hægt að anda léttar, taka á móti fleiri gestum, grilla og njóta yndislega veðursins.
Fermingardagurinn var yndislegur á allan hátt og var fullkominn í alla staði. Einstaklega blíður, fallegur dagur eins og hann Bjarni Dagur er. Í Brúsabyggðinni buðu mamma og pabbi í Brunch og allir nutu sín vel í einstaklega góðu veðri.
Bjarni Dagur gekk með reisn inn kirkjuna, játaði því að vilja hafa Jesús Krist í lífi sínu og var þar með fermdur.
Veislan var glæsileg, enda Óli kokkur meistari í matargerð. Fjölskyldan stillti sér auðvitað við borðið.
Hin víðfræga og sívinsæla hljómsveit Sykur og malt spilaði og söng nokkur vel valin lög. Hljómsveitina skipa frændurnir og stórvinirnir Bjarni Dagur, Árni Þórður og Þórir Snær. Ég samdi texta við eitt af uppáhaldslögum hans, ,,Beth'' sem þeir fagurmáluðu Kizzdrengir gerðu frægt á sínum tíma. Lagið söng ég í veislunni. Textinn fylgir hér á eftir:
Ljúfur, lítill drengur,
langur orðinn er og stór.
Ég skil ei í því lengur
hvert tíminn burtu fór.
Fyrir fjórtán árum
þú fæddist heiminn í.
Grét þá gláss af tárum
af gleði yfir því.
Minningarnar streyma ,
svo margt ég um þig man.
Oft þú lést þig dreyma
um að leika Pétur Pan.
Rútur vildir ræsa
og keyra rúnt þeim á.
Með lyklum tókst að læsa
marga lyklaskrá.
Fljótt er kominn fagur
fermingardagurinn.
Blíði Bjarni Dagur
bráðum ertu fullorðinn.
Þú skalt aldrei gleyma
að vera sannur sjálfum þér.
Og áfram átt að dreyma
um veröld betri hér.
Kökurnar brögðuðust líka vel. Ég sá um baksturinn með góðri aðstoð frá mömmu sem er allrabest í heimi. Hún hjálpaði mér líka að skreyta terturnar.
Allir fóru saddir úr veislunni, drifu sig að skipta um föt og koma sér í Eurovisiongírinn þar sem keppnin var um kvöldið. Stemning kvöldsins var frábær og skemmtu sér allir vel og úrslitunum í annað sætið var vel fagnað.
Strákarnir fóru svo báðir í skólaferðalag strax eftir fermingarhelgina - Sindri gekk inn í Kolbeinsdalinn og gisti þar eina nótt en Bjarni fór suður til Reykjavíkur, hitti forsetann á Bessastöðum, fór á Akranes, Snæfellsnesið, sigldi um Breiðafjörðinn og hélt svo heim þremur dögum og nóttum síðar.
Sindri Gunnar hélt svo afmælisveislu fyrir vini sína með pomp og prakt.
Já, mánuðurinn var einstaklega viðburðaríkur en við nutum hans einstaklega vel og verður sérstaklega vel í minnum hafður um ókomna tíð. Við erum þó þakklátust fyrir allar ánægjulegu samverustundirnar sem við höfðum með fjölskyldum okkar og vinum á þessum gleðiríku, fallegu maídögum.
Flokkur: Dægurmál | 9.6.2009 | 12:08 (breytt kl. 12:36) | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Færsluflokkar
Bloggvinir
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Athugasemdir
já, það er ekki að spyrja að því, hamagangur á Hólum eins og venjulega.
mamma (IP-tala skráð) 9.6.2009 kl. 20:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.