Dansað í gegnum lífið

Það má segja að lífið sé eins og dans.  Mjög fjölbreytt og býður upp á marga möguleika.  Oft mistekst okkur og við eigum erfitt með að læra dansinn og stundum hrösum við.  Þá stöndum við upp aftur og höldum áfram að reyna þangað til við náum góðum tökum á honum.  Takturinn er misjafn og við lærum að dansa ólíkt eftir því - stundum hratt, stundum hægt og stundum stöndum við í stað.  Dansfélagarnir eru ólíkir og við þurfum að laga okkur eftir þeim en þeir verða líka að laga sig að okkur.  Sífellt lærum við ný spor og sum eru erfið - virðast jafnvel ekki hægt að stíga.  En með góðum dansfélaga er auðveldara að takast á við erfiðleikana og yfirstíga þá og halda svo dansinum áfram.  

Frá því ég var lítil hef ég haft gaman af að dansa.  Ég og Gunnar bróðir fórum saman í dansskóla og man ég eftir að hafa þar dansað hóký póký í fyrsta sinn og að einhver strákur reyndi að sleikja mig í framan!  Þrátt fyrir þá hroðalegu reynslu hélt ég áfram að hafa áhuga á dansi þó ég stundaði hann ekki mikið.  Það var ekki fyrr en ég kynntist dansfíflinu (ekki illa meint - mér finnst þetta bara svo skemmtilegt orð!) honum Þórði mínum sem ég fór að dansa meira - enda var ég þar með komin inn í dansfjölskyldu mikla sem nýtir hvert tækifæri til að dansa.

Nýlega kom danskennari í sveitina og var með námskeið í grunn- og leikskólanum á Hólum og í Hofsósi fyrir börnin.  Að sjálfsögðu voru svo danssýningar í lok námskeiðsins.  Ég mætti auðvitað með myndavélina og náði myndbandi af Bjarna og félögum dansa Grease.  Bjarni er lengst til hægri - hávaxinn, ljóshærður og glæsilegur Smile

Aníta og Sindri stóðu sig líka mjög vel og tók ég myndir af þeim - ekki þó video.

IMG_4653IMG_4686

Já þetta eru upprennandi danssnillingar enda hafa þau ekki langt að sækja þetta.  Sjálf hef ég ekki dansað mikið upp á síðkastið en vonandi breytist það fljótt.  Ég tel dans vera allra meina bót - eykur úthald og styrk auk þess sem hann reynir á fjölda vöðva og samhæfinguna.  Svo er þetta bara svo rosalega skemmtilegt og bæði stund og staður gleymist á meðan dansað er.

Ég hvet alla til að fara að dansa og gefast þar með tækifæri til að gleyma um stund ástandinu á þessum síðustu og verstu tímum.  Og förum dansandi í gegnum lífið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband