Úff, hvar á ég að byrja? Það er búið að vera svo mikið annríki hjá mér síðustu tvær vikur að ég hef ekkert mátt vera að því að blogga. Við fórum suður til Hafnarfjarðar fimmtudaginn 4. desember og vorum þar fram á mánudaginn 8. des. Við náðum ekki að leggja af stað suður fyrr en rúmlega fimm síðdegis og vorum komin um hálftíuleytið suður með matarstoppi í Staðarskála. Ég náði að kasta stuttri kveðju á vinkonur mínar sem voru með mér í Kennó en þær hafði ég ekki hitt síðan áður en ég flutti norður fyrir um 2 1/2 ári síðan með þeirri undantekningu þó að nokkrar þeirra hitti ég í húsdýragarðinum í fyrrasumar. En það var mjög ánægjulegt að hitta skvísurnar og heyra nýjasta slúðrið og fá fréttir af þessum frábæru stelpum. En klukkan rúmlega 11 vorum við komin í hlýjuna í Þrastarási hjá mömmu og pabba. Það er aldeilis mikilvægt að eiga alltaf samastað þar þegar við komum suður og það fer alltaf virkilega vel um stórfjölskylduna þar.
Föstudagurinn fór að mestu í ýmsar útréttingar og ýmislegt þurfti að kaupa fyrir jólin. Við vorum reyndar búin að kaupa langflestar jólagjafirnar og pakka þeim inn en Anítu vantaði jólakjól og skó, Bjarna Degi vantaði skyrtu og skó og ýmislegt annað þurfti að huga að. Um kvöldið hitti ég bestu vinkonurnar í saumó hjá Krissu. Þær eru svo yndislegar þessar elskur og við mættum allar. Á laugardeginum náðum við að taka það rólega fram eftir degi. Svo litum við í jólaþorpið í Hafnarfirði sem er mjög flott og mér finnst það aldrei hafa verið flottara en núna. Svo litum við til Dóru sem leist svo vel á Elsu Margréti sem hún hitti í fyrsta skipti. Svo tók við jólaboð í Rjúpnasölum. Við vorum svo heppin að Brynja og Bjartur Bóas voru á landinu og litlu frændsystkini léku sér saman á gólfinu. Aníta og Sindri fóru í næturgistingu hjá frænkum sínum Helgu og Lilju og nutu sín vel í góðu yfirlæti
Á sunnudaginn var svo jólaboð í Þrastarásnum. Það vill reyndar svo til að fjölskyldan lendir yfirleitt í einelti í jólaboðum af boðflennu einni sem Hurðarskellir nefnist. Hann kom færandi hendi með gjafir handa öllum, stórum sem smáum.. Svo óheppilega vildi til að Þórður var einmitt fjarverandi þegar hann átti að fá sína gjöf (það gerist ótrúlega oft þegar Hurðaskellir kemur - tilviljun?) og sögðu Aníta og Sindri að pabbi þeirra væri svo oft að stríða þeim. Þegar kom að því að ég fékk mína gjöf sagði Hurðaskellir að ég væri búin að vera svo óþekk að það væri óvíst hvort ég ætti skilið að fá gjöf. Hún yndislega Aníta Sóley mín kom mér til varnar eins og vanalega þegar hún telur sig þurfa að verja mig og sagði að ég væri sko ekki óþekk - ég væri alltaf að verja þau fyrir pabba sínum! Hmmm, ef fjölskyldan mín þekkti okkur ekki betur, mætti auðveldlega álykta sem svo að heimilið okkar væri stríðsvöllur þar sem ég geng fram fyrir skjöldu til verndar börnum mínum fyrir hræðilegum föður. En þetta var glæsilegt hlaðborð og svo tróð hljómsveitin Sykur og malt upp og flutti nokkur jólalög. Við fórum svo í afmælisboð hjá Immu og hittum þar nokkra ættingja Þórðar sem við höfðum ekki hitt lengi.
Á mánudaginn fórum við svo heim eftir sérstaklega ánægjulega daga í Firðinum. En eins og vanalega tók það marga tíma að komast af stað úr bænum því fleira þurfti að útrétta á leiðinni heim og vorum við komin um hálftíu um kvöldið heim til Hóla.
Strax á þriðjudagsmorguninn fórum við til Akureyrar með leikskólanum og grunnskólanum að sjá leikritið Leppur, Skreppur og jólaskapið sem var virkilega skemmtilegt. Á miðvikudaginn var piparkökuskreyting í leikskólanum og á fimmtudaginn voru jólatónleikar kórs Hóladómkirkju þar sem Þórður var að syngja. Á föstudagsmorguninn var ég í skólanum á Hofsósi með Bjarna og entist varla tíminn að föndra allt það skemmtilega sem í boði er. Ég var svo heppin að kennararnir kepptust um að fá að halda á Elsu Margréti svo við gátum dembt okkur í föndrið. Eftir hádegi fórum við í Hólaskóla að skera út laufabrauð og steikja - frábær stemning var þar ríkjandi.
Á laugardaginn spiluðu strákarnir á tvennum tónleikum. Bjarni spilaði í Hofsósi og svo spiluðu þeir báðir í Hóladómkirkju. Glæsilegar kaffiveitingar voru á báðum stöðum að tónleikum loknum. Á sunnudaginn var aðventuhátíð í kirkjunni. Sindri Gunnar lék fjárhirði í helgileiknum og Aníta söng. Svo sýndi Sindri einstök tilþrif á þríhorn sem hann lék á og söng um leið. Svo var aðventukaffi á eftir sem við kvenfélagskonur sáum um. Það er alveg ljóst að mataræðið er ekki með dönsku ívafi þennan desembermánuðinn.
Í gær fórum við tvær ferðir á Krókinn. Fyrst fórum við með Elsu Margréti í 6 mánaða skoðun - krílið er orðið hálfsárs, 7640 grömm og 66 cm. Nú bíður hún bara spennt eftir jólunum því hún fær fyrsta grautinn sinn á aðfangadag þegar við borðum jólagrautinn okkar. Svo fórum við aftur til að fara með börnin til tannlæknis og Þórður fór í harmonikkutíma á meðan. Við vorum komin frekar seint til baka svo ég sleppti starfsmannagleði leik- og grunnskólans sem var þá að ljúka. Í dag er skutl fyrir Anítu til og frá Narfastöðum í afmæli og í kvöld er jólavaka grunnskólans í Hofsósi. Þar mun Bjarni leika á píanóið og við mætum að sjálfsögðu. Fyrir vikið missi ég af jólasaumó hjá Örnu Björg í Ásgeirsbrekku. Á föstudaginn er svo jólaball leik- og grunnskólans á Hólum og jólaball grunnskólans í Hofsósi. Það er því búið að vera nóg að gera hér á bæ.
En þó svo mikið annríki hefur ríkt hér á bæ, þá er þetta yndislegur tími sem ég ætla mér að njóta í botn. Gleðin jókst enn frekar á heimilinu þegar rauðklæddu boðflennurnar tóku að læðast hér að næturlagi. Ýmsar væntingar eru hjá Sindra og Anítu um hvað þau fái í skóinn og ýmislegt er lagt á sitt til að tryggja góðan afrakstur. Aníta taldi sig þurfa að hjálpa Sindra að hátta sig um daginn - til að tryggja það að jólasveinarnir sæju hversu hjálpsöm hún er. Sindra fannst nú ekkert skemmtilegt að láta Anítu hátta sig - enda töluvert fullorðnari en hún! Í fyrra kom það í hlut okkar foreldranna að skrifa orðsendingu frá Sindra til jólasveinanna. ,,Stekkjastaur - þú ert bestur''! stóð á miðanum sem hann fékk. ,,Giljagaur - þú ert bestur''! stóð á miðanum til þess næsta og svo koll af kolli. Núna skilur hann eftir hin ýmsu eldhúsáhöld úti í glugga. Við vorum ekki með neina óhreina þvöru þegar von var á Þvörusleiki svo við urðum að gjöra svo vel að óhreinka hana hið snarasta svo drengurinn gæti blíðkað sveinka. Sama gilti um pönnuna fyrir Stúf og pottinn fyrir Pottasleiki . Í morgun spurði kauði mig svo hvort ég gæti ekki hringt í ömmu Elsu og afa Þóri og beðið þau um að senda sér gamla askinn sem þau eiga, svo hann gæti nú dekstrað við Askasleiki í nótt. Drengurinn verður bara að láta sér disk nægja í þetta sinn. Já, þetta er mikil góðmennska frá hans bæjardyrum séð en mér finnst þetta vera hinn mesti tækifærissinni - en það er nú líka allt í lagi.
Þegar ég spurði Anítu í morgun hvað hún hefði fengið í skóinn í nótt, svaraði hún - ,,mamma, ef ég þarf að pissa og vil ekki pissa í mig, hvað geri ég þá?'' Ég svaraði henni þá að hún myndi nú sennilega fara á klósettið. Þá svaraði hún; ,,rétt hjá þér, ég fékk klósett í skóinn, Playmóklósett og Sindri fékk Playmóvask.'' Þessir jólasveinar eru nefnilega svo sniðugir að þau fá playmó í smáskömmtum þessa dagana sem þau svo safna saman. Gullkornin hrynja gjörsamlega af Anítu Sóleyju þessa dagana. Þar sem foreldrunum er báðum mjög umhugað um umhverfið þá höfum við sagt dömunni að hún eigi alltaf að slökkva ljósið í herberginu þegar hún er þar ekki. Auk þess hefur hún fengið fræðslu í leikskólanum sem vinnur að því að fá Grænfánann. Auk þess hefur ekki farið fram hjá henni umræðan um minnkandi fjárhag hjá öllum fjölskyldum í landinu og um fátæku börnin sem deyja því þau fá ekki mat að borða. Um daginn slökkti ég ekki ljósið inni í herbergi þar sem ég var að fara þangað strax inn aftur og þá sagði hnátan þessa snilldarsetningu þar sem hún var búin að blanda þessu öllu saman í einn hrærigraut; ,,Mamma, hvað er að þér, ætlarðu að drepa okkur öll , þú skilur eftir kveikt ljósið!''
Hafið það sem allra best á aðventunni.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Færsluflokkar
Bloggvinir
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Athugasemdir
þessi tími hefur verið annasamur og ekki er hægt að segja annað en nóg hafi verið að gera. það er gaman að fylgjast með Anítu og Sindra. hvernig þau hugsa til Jóasveinanna. Svo er spurnigninn Hurðaskellir kemur á miðvikudag og hvað skildi hann gera þá, það hefur komið fyrir að hann hafi tekið hurðir af íbúðinni þegar hann gefur í skóginn, hvað skildi hann gera þessa nótt?
Svo verð ég að segja hvað Linda sagði þegar hún hringdi í mig meðan ég var að skrifa þetta. Ég er nefnilega að fara keyra Anítu í Afmæli á narfastaði og Linda var að láta mig vita að Aníta væri lögð af stað til mín upp í skóla.
Linda: Þórður Aníta er lögð af stað til þín hún er í rauðum og bláum galla svo að þú þekkir hana.þ
Þórður : Hló,hló og hló og sagði svo eins gott að þú seigir mér hvernig hún lítur út til að ég þekki hana örugglega. og hló ennþá meira
Nú þarf að að drífa mig af stað með Anítu þar að seigja ef ég átta mig á hver hún er.
Þórður Ingi Bjarnason, 16.12.2008 kl. 16:02
Það er ekki að spyrja að þessari fjölskyldu. Engin lognmolla þar. Og þessir litlu gullmolar mínir eru einstakir. Ég vona að allir séu á lífi og við góða heilsu.
Jólakveðjur
mamma (IP-tala skráð) 19.12.2008 kl. 17:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.