FH - skorum og vinnum þennan leik.........

Það var skemmtileg stemning á heimilinu í gær þegar við fylgdumst spennt með leik FH og Keflavíkur í Landsbankadeildinni.  FH þurfti nauðsynlega á sigri að halda til að eiga séns á Íslandsmeistaratitlinum meðan Keflavík gat tryggt sér hann með jafntefli.  Þar sem við búum á svæði þar sem Stöð tvö næst ekki og þar af ekki Stöð tvö sport heldur, var ekki möguleiki að sjá leikinn í sjónvarpinu.  Við sátum því við útvarpið og hlustuðum á lýsinguna á Rás tvö jafnframt því sem við höfðum tölvuna við höndina og fylgdumst með lýsingunni á Mbl.

Þessi rúmlega tvö ár sem við höfum búið hér á Hólum hafa nú verið mjög góð þrátt fyrir að hafa ekki um aðra sjónvarpstöð að velja en sjónvarp allra landsmanna.  Þegar við fluttum hingað höfðum við verið áskrifendur að Stöð tvö í mörg ár og áttum okkar uppáhaldsþætti þar.  Einnig voru margir skemmtilegir þættir á Skjá einum sem við fylgdumst reglulega með.  Auk þess vorum við orðin nokkuð flink að nýta okkur Stöð tvö plús og þannig var alltaf um nóg sjónvarpsefni að velja og sjónvarpskvöldið stundum skipulagt fyrirfram. 

Það voru því óneitanlega viðbrigði að flytja hingað og hafa einungis eina stöð og ekkert plús eða extra dæmi í boði.  En við vöndumst því fljótt.  Það eru margir góðir þættir á RÚV sem við fylgjumst með.  Og ef við viljum ekki horfa á það sem er í boði í sjónvarpinu, þá einfaldlega slökkvum við á því og tökum upp spilin eða gerum eitthvað annað skemmtilegt í staðinn.  Við erum líka alveg laus við valkvíða um hvað á að horfa á.  Það sem mér finnst þó skemmtilegast við þetta er að reglulega hringja sölumenn og bjóða okkur áskrift að Stöð tvö.  Svarið er alltaf á reiðu; endilega - byrjið bara á því að setja upp sendi fyrst!   

Það koma dagar sem ég vildi að ég gæti horft á Stöð tvö.  Einn af þeim dögum var í gær.  Það hefði verið frábært að geta séð þennan spennandi leik í sjónvarpi auk þess sem sýningar hófust á Dagvaktinni.  En það er ekkert annað í stöðunni en að bíða eftir DVD útgáfunni af þáttaröðinni og treysta á útvarpið og Mbl í íþróttalýsingunum. 

Svo má geta þess að lokum að leikurinn í gær var alveg frábær og FH-ingar sýndu svo sannarlega hvað í þeim býr- hvílíkt baráttuþrek að geta gert út um leikinn á ögurstundu.  Nú er bara að vona að þeir klári þetta og bæði FH og Fram standi sig í leikjunum sem eftir eru! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband