Í rigningu ég syng

Kannski er ég svona skrýtin, en ég elska rigningu.  Mér finnst yndislegt að vera úti, þokkalega vel klædd og ganga um í rigningunni.  Að vera í tjaldi og finna rigninguna dynja á tjaldinu er líka yndislegt - að undanskildu fyrsta skátamótinu mínu þegar við vinkonurnar vorum með 2ja manna tjald með sex manna himinn - það var ekki alveg að virka og flúðum við í sjúkratjaldið þegar allt var komið á flot, enda vorum við á Vormóti í Krísuvík sem er rómað fyrir rigningu. 

Hrifning mín af rigningu jókst til mikilla muna þegar við fluttum hingað í sveitina.  Húsið sem við búum í er alveg við skógarjaðarinn og lyktin af gróðrinum er engu lík eftir góða vökvun af himnum ofan.  Það versta við rigninguna finnst mér þó hvassviðrið sem stundum fylgir með - þá er ekki alveg eins gaman úti.

Það er reyndar ekki rigning í augnablikinu hér á Hólum, en það er búið að vera mjög hvasst.  Ég og börnin mín fjögur erum öll inni og keppumst um að hafa það sem mest kósý.  Allir grunn- og leikskólar á þessum landshluta eru lokaðir í dag vegna haustþings starfsmanna þeirra og því höfum við það ótrúlega gott.  Playmokassinn var tekinn niður úr skáp í morgun og svo er ég nú þegar búin að horfa á eitt leikrit í tveimur þáttum.  Börnin mín eru upprennandi leikarar.  Næst verða líklega litabækur og litir sett á borðið og hlustað á einhver skemmtileg ævintýri af geisladiski.  En nú mallar grjónagrautur á hellunni því það er fátt notalegra en að gæða sér á heitum graut í þessu ,,blíðskapar'' veðri.

Góðar stundir 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband