....Ljóminn á skilið það lof sem hann fær.........

Ég tek svo sannarlega undir það enda afbragðssmjörlíki þar á ferðinni sem verður yfirleitt fyrir valinu þegar ég kaupi mér smjörlíki.  En ef Ljómann þú bræðir og Ljómann þú snæðir mun Ljóminn að eilífu valda ofþyngd niðr'í tær.

Fyrst ég minnist á smjörlíki skal þess getið að ég hef misst ellefu og hálft smjörlíkisstykki af mér á tveimur vikum sem samsvarar 5,7 kg.  Það fóru sem sagt 600 gr. þessa vikuna og er það alveg ásættanlegur árangur.  Það jafnast auðvitað ekki á við fimm komma eina kílóið sem hvarf í síðustu viku - enda ekki hægt að bera það saman.  Það er samt ótrúlegt hvað vigtin sveiflast mikið upp og niður.  Ég prófaði í morgun að vigta mig þrisvar sinnum og alltaf kom sitthver niðurstaðan og rokkaði vigtin um 2 kg hvorki meira né minna.  Ég heft lagt það í vana minn að vigta mig þegar ég er nývöknuð og búin að losa mig við vökvasöfnun næturinnar og mun ég halda mig við það þó svo ég hafi verið léttari í þriðju vigtun.   Ég er hætt að vigta mig daglega eins og ég gerði gjarnan áður því að sama skapi rokkar vigtin milli daga.

Auðvitað er ég svekkt yfir að hafa bætt mikið á mig á meðgöngunni þegar ég var búin að ná svona góðum árangri en það þýðir ekkert að liggja í smjörlíkinu þangað til það storknar heldur er málið að rífa sig upp úr því og losa sig við það.  Ég lýsi því ekki eftir týndu smjörlíkisstykkjunum og engin fundarlaun eru í boði!

Annars er allt gott að frétta úr sveitinni.  Malbikið varð reyndar að bundnu slitlagi en mér sýnist að tími stórgrýtisins sé endanlega úr sögunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábært hvað sumir eru staðfastir og ákveðnir. Það er alltaf þannig með mig að ég gefst upp áður en ég byrja enda get ég ekki farið eftir reglum sem aðrir setja og snerta mig persónulega. Ég hef bara mestar áhyggjur af því að þú bráðnir eins og smjörlíkið á til að gera við ákveðið hitastig. Svo er eitt gott ráð við vanstilltum vogum og það er að stilla hana á -10 og árangurinn verður eins góður og hugsast getur.

Kveðja

mamma

mamma (IP-tala skráð) 16.9.2008 kl. 14:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband