Einhvern tímann er alltaf fyrst

Ég hét sjálfri mér því að ef við yrðum áfram hér norðan heiða myndi ég byrja að blogga eins og allir hinir.  Það vill svo til að nokkrir hafa komið á leits við mig að hefja svona skrif en hingað til hef ég hrist það af mér.  Ekki er ólíklegt að þetta verði bæði fyrsta og síðasta bloggið sem ég skrifa þar sem ég hef ekki hugmynd um hvernig þetta mun þróast.  En ég tel þó nauðsynlegt að láta á það reyna.

Það er alltaf nóg að gera hér í sveitinni og lífið er komið í rútínu eftir yndislegt og viðburðarríkt sumar.  Unglingurinn fór í nýjan skóla og er eingöngu í sundi tvær fyrstu vikurnar.  Hann þarf reyndar að fara í skólabíl fyrst til Hofsós þar sem hann verður í skóla í vetur, en þar sem engin sundlaug er þar enn þá fer hann áfram með bílnum í Sólgarða í Fljótunum.  Drengurinn kemur örþreyttur heim á hádegi eftir að hafa stungið sér tvisvar í laugina.  Það verður nú mikill munur þegar sundlaugin á Hofsósi opnar og að sjálfsögðu mikil lyftistöng fyrir bæjarlífið þar. 

Við fengum bréf í póstinum í gær sem í raun staðfestir hversu hratt tíminn líður.  Við vorum nefnilega minnt á það að á næsta ári verður frumburðurinn 14 ára og fermingarfræðslan sé að hefjast ef hann vill láta ferma sig.  Þó þetta hljómi eins og klisja þá finnst mér tíminn hafa liðið allt of hratt og það er svo stutt síðan ég hélt á honum í fanginu nýfæddum.  Og þó ég reyni að njóta hverrar stundar eins og mögulegt er þá vildi ég oft að það væri hægt að frysta nokkur augnablik.

Smá pæling:  Ég hlustaði í gær á viðtal í útvarpinu við tvær konur úr Femínistafélaginu sem ætla að hafa spurningakeppni í kvöld þar sem spurningarnar eru kvenlægar og fjalla um fæðingu, blöðrubólgu og fleira.  Mér finnst mjög gott að vekja athygli á að spurningar sem þessar vantar í hinar hefðbundnu spurningakeppnir eins og t.d. Gettu betur.  En af hverju þarf að eyrnamerkja þær sem kvenlægar spurningar og spurningar um blöndunga og handbolta karla sem karllægar?  Að mínu mati flokkast efni um blöðrubólgu, meðgöngu, fæðingu, hannyrðir, blöndunga og fleira sem almennar spurningar sem bæði kynin hefðu jafngott af því að hafa vitneskju um.  Ef við flokkum alltaf í huganum allt sem annaðhvort karl- eða kvenlægt þá held ég að við förum alltaf lengra og lengra frá hugmyndinni um jafnrétti.

Svo mörg voru þau orð

 


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband