Færsluflokkur: Dægurmál

Elsa Margrét eins árs

Litla, yndislega stúlkan mín með fallegu bláu og stóru augun sín er eins árs í dag.  Það er með ólíkindum hversu hratt þetta fyrsta ár í lífi hennar hefur liðið.  Hér koma myndir af henni frá fyrsta árinu hennar.

20080713143614_0   Nýfædd  

20080713135126_0 1 mánaða

                                                          

 

20080812133147_1    2ja mánaða    

20080917143049_17    3ja mánaða

20081023092408_0   4 mánaða        

20081125093508_0    5 mánaða

                                                  

20081211182140_1 6 mánaða                                                    

20090122152725_0  7 mánaða

20090215151651_1 8 mánaða                                                

20090315162632_0  9 mánaða

20090420193400_1 10 mánaða                                               

20090601012315_0   11 mánaða

IMG_6475

                                                         1 árs

Í tilefni 1 árs afmæli dömunnar er tilvalið að rifja upp fæðingarsöguna:

Þriðjudaginn 10. júní fórum við Þórður í mæðraskoðun á Króknum.  Ég var komin 39 vikur og orðin mjög þreytt á því að geta ekkert hreyft mig lengur.  Það var því gott að komast í nálarstungur sem ljósmæðurnar höfðu boðið mér upp á síðustu vikurnar í mæðraskoðunum.  Grindargliðnunin var orðin svo slæm að ég þurfti að stoppa og hvíla mig eftir hver fimm skref sem ég gekk og ferð á Krókinn kostaði það að ég þurfti að hvíla mig það sem eftir var dags.  Samt var það svo að þessi svokallaða hreiðrunarhvöt hafði gert vel vart við sig og ég hafði óendanlega þörf á því að baka og ég lét það eftir mér, börnunum til mikillar ánægju þó svo Þórður væri ekki sáttur við að ég væri að standa í þessu þegar ég þurfti á hvíld að halda! 

Í mæðraskoðuninni kom fram að litla krílið væri ekki búið að skorða sig enn heldur væri það við grindarinnganginn og þrýsti mikið niður.  Það var því mikill þrýstingur bæði upp og niður því nóttina á undan hafði ég lítið sofið vegna mikils brjóstsviða og sat nánast alla nóttina í rúminu.  En Jenný ljósmóðir sagði að ef þessi fæðing myndi byrja eins og hinar þrjár á því að ég missti vatnið ætti mér að vera óhætt að ganga út í bíl og þyrfti ekki á sjúkrabíl að halda þar sem barnið væri komið það neðarlega.

Eftir mæðraskoðunina fórum við í Skagfirðingabúð að kaupa helstu nauðsynjar þar sem kaupstaðarferðirnar á Sauðárkrók eru nýttar í það í leiðinni.  Reyndar ákvað ég að bíða úti í bíl meðan Þórður stökk inn þar sem ég var nú ekki frá á fæti og ekki líkleg til að geta lokið innkaupaferðinni með mikilli reisn.  Þegar Þórður var nýkominn út í bíl hringdi Hinrik bróðir hans.  Hann og Brynja kona hans áttu von á sínu fyrsta barni þann 24. júní, akkúrat viku á eftir okkur, en krílið okkar var væntanlegt á þjóðhátíðardaginn sjálfan.  Hinrik spurði hvort við værum nokkuð komin upp á spítala og fékk það svar að við værum að koma úr skoðun.  Hann spurði þá hvort barnið færi ekki að koma hjá okkur því Brynja hafi verið að missa vatnið og fannst auðvitað kjörið að þeir bræðurnir yrðu samtaka í þessum merkisviðburðum.  Þórður sagði svo við mig eftir á að það yrði nú alveg frábært ef við gætum fætt samtímis á sitthvorum landshlutanum.  Ég gaf nú ekki mikið út á það og bað hann nú vinsamlegast að keyra rólega upp brekkuna heima sem jafnaðist á við Kjalveginn þegar hann var sem verstur og þau myndu eiga sitt kríli á undan okkur. 

En þar hafði ég rangt fyrir mér.  Ég vaknaði aðfaranótt miðvikudags 11. júní kl. 01:31 við mikinn brjóstsviða og teygði mig í brjóstsviðatöflu á náttborðinu.  Meðan ég tuggði töfluna að hætti Dr. Saxa fann ég að eitthvað seytlaði niður fæturna.  Ég vakti Þórð og sagði honum að ég teldi að legvatnið væri farið.  Ég stóð upp og þá kom mikil gusa með grænu gruggugu legvatni og grunurinn var þar með staðfestur.  Þórður hringdi á fæðingardeildina á Akureyri til að láta vita af komu okkar og ljósmóðirin sem hann talaði við ráðlagði sjúkrabíl þar sem legvatnið væri grænt og barnið ekki skorðað.  Í þrjósku minni vildi ég samt sem áður fara á okkar bíl þar sem ég gat ekki hugsað mér að sjúkraflutningsmennirnir þyrftu að halda á mér, það vildi ég ekki leggja á vesalings mennina.  Bjarni Dagur var vakinn upp þar sem hann ætlaði að gæta systkina sinna á meðan við værum á Akureyri.  Þórður setti allt sem taka átti með út í bíl og segir svo ákveðinn að hann vilji að ég fari í sjúkrabíl til öryggis.  Ég ákvað að láta eftir því og Þórður hringdi á bíl kl. 2 sem kom svo um tuttugu mínútum síðar.  Eftir nokkrar umhugsun var það ákveðið að Þórður færi á okkar bíl til að hafa hann fyrir norðan. 

Um leið og ég missti vatnið byrjuðu smá verkir sem voru í fyrstu bara seiðingur.  Þegar sjúkrabíllinn keyrði út Blönduhlíðina jukust verkirnir smám saman en voru óreglulegir og nokkuð vægir.  Þeir voru alla vega ekki verri en það að mér dugði að draga djúpt inn andann í hríðunum og náði þannig að láta sem ekkert væri til að stressa ekki upp sjúkraflutningsmennina að óþörfu.  

Á Öxnadalsheiðinni voru hríðarnar orðnar mjög harðar.  Sá sjúkraflutningamaður sem keyrði ekki hafði setið aftur í hjá mér en sat nú um stund frammi í hjá bílstjóranum og varð því ekkert var við sífellt harðnandi hríðar.  Þegar við komum niður heiðina kom hann aftur í til mín og þá gat ég ekki lengur leynt því hvernig væri ástatt hjá mér.  Sjúkraflutningamaðurinn mældi þrjár mínútur á milli hríða og þær urðu sífellt harðari.  Ég bað hann um að hringja í Þórð til að athuga hvar hann væri staddur en hafði um leið áhyggjur af því að hann færi að keyra of hratt í stressi.  Hann var þá um 10 km á eftir okkur. 

Við Þelamörk voru hríðarnar orðnar það harðar að einungis var mínúta á milli þeirra og var ég orðin áhyggjufull um hvort Þórður myndi missa af fæðingunni sem gæti jafnvel átt sér stað í bílnum.  Þegar inn á Akureyri var komið voru hríðarnar orðnar stanslausar og ekkert hlé á milli.  Öll öndun sem ég hafði vandað mig við á leiðinni var rokin út í veður og vind og hugsaði ég bara um að komast í tæka tíð á spítalann.

Ég náði inn á fjórðungssjúkrahús um 4:05 og þar tók á móti mér ljósmóðir sem mældi strax útvíkkunina sem var orðin sex.  Hún kallaði strax á barnalækni þar sem legvatnið var grænt en það er gert í varúðarskyni.  Þórður kom inn á deild tæplega tíu mínútum síðar og loksins þá fór ég að kvarta yfir hrikalegum verkjum.  Þórður uppgötvaði að hann gleymdi myndavélinni í bílnum og skaust til að ná í hana.  Þegar hann var nýkominn inn aftur var ég að ljúka enn einni hríðinni en um leið og henni lauk fann ég gífurlegan þrýsting og þá sást í kollinn á krílinu. 

Eftir örfáa rembinga fæddist kollurinn á litlu dömunni og barnalæknirinn byrjaði strax að sjúga upp úr henni því enginn grátur heyrðist frá henni.  Ég ýtti á eftir því að klára að fæða hana sem fyrst svo það væri hægt að taka hana og koma henni almennilega í gang.  Hún fæddist kl. 04:31, innan við hálftíma eftir að ég komst á spítalann og þremur tímum eftir að allt fór af stað á Hólum.   Barnalæknirinn var með hana hjá sér í um tuttugu mínútur áður en þreyttir en hamingjusamir foreldrar fengu hana loksins í fangið.

Daman vó 4020 gr eða 16 merkur og var 53 cm að lengd.  Hún var mjög þreytt eftir fæðinguna og tók smá tíma að jafna sig.  Við mæðgurnar ákváðum að liggja sængurleguna á Akureyri þar sem einstaklega vel var hugsað um okkur.  Þórður fór til Hóla seinni part dagsins eftir nokkra hvíld og kom svo daginn eftir með börnin og gistu þau í íbúð við Þórunnarstræti sem hann fékk leigða í gegnum rauða krossinn.  Þannig voru þau öll í nálægð við okkur mæðgur en gátu einnig gert sér glaðan dag með því að fara í sund, bíó og fleira skemmtilegt.

Hvað Hinrik og Brynju varðar þá fæddist þeim sonur fimmtudaginn 12. júní kl. 4:13, nánast akkúrat sólarhring seinna.  Litla daman okkar vildi greinilega ekki leyfa litla frænda að koma á undan sér.


Fallegir, viðburðarríkir maídagar að baki

Jæja, tíminn líður hratt og hraðar en aldrei fyrr.  Nú sér brátt fyrir endann á þessum sæludögum í fæðingarorlofi og mun ég skella mér út á vinnumarkaðinn aftur í haustbyrjun.  En margt hefur á dagana drifið að undanförnu og var maímánuður sérstaklega viðburðaríkur í lífi stórfjölskyldunnar. 

Við skunduðum suður um mánaðarmótin apríl - maí til að ganga frá nýjum leigusamningi fyrir íbúðina okkar og staðfesta þar með áframhaldandi dvöl á Hólum.  Auk þess þurftum við að útrétta ýmislegt fyrir ferminguna.  Það dugði ekkert minna til en 10 daga reisa í Fjörðinn fagra.  Ég tók þátt í að gæsa hana Helenu eina bestu vinkonu mína og fór svo í brúðkaup hennar með Þórði viku seinna.  Að því tilefni samdi ég þennan texta við lagið ,,Þá stundi Mundi'':

Í Firðinum fagra ein valkyrja bjó,

í fyrsta sinn hoppaði hún þar í sjó.

Í skátunum Helena lék sér um skeið

og skvettan þá kölluð var Lenus um leið.

Og svo sagði Lenus; ,,Ekki vaða‘yfir mig,

hann pabbi er lögga og handtekur þig.‘‘

 

Í Skorradal skundaði björgunarsveit,

í skála í nóvember nítíu‘og eitt.

Um síðkvöld með Bugles í skóginum þar,

mjög skjótt urðu Markús og Helena par.

Og svo sagði Lenus; ,,Markús minn, Markús minn,

ég vil engan annan en þig, skátinn minn.‘‘

 

Saklaus í sveitina Helena fór,

er sveitarpiltsdraumur í vestri var stór.

Á Rauðmelum ástin réð ríkjum hjá þeim

sem reis áfram hærra er komu þau heim.

Og svo sagði Lenus; ,,Markús minn, Markús minn,

ég vil engan annan en sveitarpiltinn.‘‘

 

Nýtt hlutverk fékk Helena marsdaginn einn,

þá hlotnaðist henni einn rauðhærður sveinn.

Nú þrjú eru börnin svo blíð og svo góð

og blönduð þau eru með sjóarablóð.

Og svo sagði Lenus; ,,Út á sjó, út á sjó,

ég vil sigla á skútu, já lengst út á sjó.‘‘

 

Nú dýrlegur draumur brátt rætist hjá þeim,

á dallinum sigla þau lengst út í heim.

Með Sæúlf að vopni skal takmarkið nást,

svo Lenus og Keli nú staðfesta ást.

Og svo segja hjónin;,,Okkar takmark brátt næst,

víst draumarnir geta hjá öllum vel ræst.‘‘

20090531233611_3

Þórður þurfti að sinna ýmsu viðhaldi á íbúðinni okkar áður en hún var afhent nýjum leigjendum og tók það drjúgan tíma meðfram því sem hann undirbjó veigamikla ferðasýningu sem haldin var í Laugardalshöllinni.  Þórður og Elsa   Þórður og Elsa í íbúðinni okkar 

20090531233625_7  Þórður í Skagafjarðarbásnum

 

 

Frænkukvöld Brúsastaðaættarinnar var haldið og mætti ég þar að sjálfsögðu með mömmu og systrum mínum. 

4737_1161703806885_1356537855_427075_2114460_n

Bjarni Dagur fór í fermingarmyndatöku fyrir sunnan og fjölskyldan öll dressaði sig upp og teknar voru líka myndir af allri fjölskyldunni. 

Þegar norður var komið hófst lokaundirbúningur fyrir fermingardag frumburðarins.  En jafnframt undirbúningnum var nóg að gera hjá fjölskyldunni síðustu dagana fyrir fermingu og auk þess var Bjarni Dagur í prófum alla vikuna og þurfti að sjálfsögðu aðstoð við að láta hlýða sér yfir. 

Aníta Sóley útskrifaðist úr leikskólanum með tilheyrandi listasýningu og kaffi og Sindri Gunnar var með kynningu á verkefni sem hann var búinn að vera að vinna að.  Bræðurnir spiluðu á tónleikum Tónlistarskólans.  Mamma og pabbi voru þá komin norður ásamt Árna Þórði og náðu að horfa á tónleikana.       

  Aníta  Aníta Sóley útskrifast úr leikskólanum                                

20090601010315_14  Sindri og Hafsteinn með kynningu í skólanum

Daginn fyrir fermingu var afmælisdagur Sindra Gunnars.  Slegið var upp veislu fyrir þá fjölskyldumeðlimi sem mættir voru á svæðið auk þess sem flóamarkaður og kaffihús var í grunnskólanum sem auðvitað varð að mæta á.  Svo hittum við prestinn, dekkuðum upp, skreyttum kökur og gerðum salinn klárann.  Þá var loks hægt að anda léttar, taka á móti fleiri gestum, grilla og njóta yndislega veðursins.

Fermingardagurinn var yndislegur á allan hátt og var fullkominn í alla staði.  Einstaklega blíður, fallegur dagur eins og hann Bjarni Dagur er.  Í Brúsabyggðinni buðu mamma og pabbi í Brunch og allir nutu sín vel í einstaklega góðu veðri. 

20090531233642_11

20090531233728_22

Bjarni Dagur gekk með reisn inn kirkjuna, játaði því að vilja hafa Jesús Krist í lífi sínu og var þar með fermdur. 

20090531233846_40

20090531233926_50

Veislan var glæsileg, enda Óli kokkur meistari í matargerð.  Fjölskyldan stillti sér auðvitað við borðið.

20090531234052_71

 Hin víðfræga og sívinsæla hljómsveit Sykur og malt spilaði og söng nokkur vel valin lög.  Hljómsveitina skipa frændurnir og stórvinirnir Bjarni Dagur, Árni Þórður og Þórir Snær.  Ég samdi texta við eitt af uppáhaldslögum hans, ,,Beth'' sem þeir fagurmáluðu Kizzdrengir gerðu frægt á sínum tíma.  Lagið söng ég í veislunni.  Textinn fylgir hér á eftir: 

Ljúfur, lítill drengur,

langur orðinn er og stór.

Ég skil ei í því lengur

hvert tíminn burtu fór.

Fyrir fjórtán árum

þú fæddist heiminn í.

Grét þá gláss af tárum

af gleði yfir því.

 

Minningarnar streyma ,

svo margt ég um þig man.

Oft þú lést þig dreyma

um að leika Pétur Pan.

Rútur vildir ræsa

og keyra rúnt þeim á.

Með lyklum tókst að læsa

marga lyklaskrá.

 

Fljótt er kominn fagur

fermingardagurinn.

Blíði Bjarni Dagur

bráðum ertu fullorðinn.

Þú skalt aldrei gleyma

að vera sannur sjálfum þér.

Og áfram átt að dreyma

um veröld betri hér.

Kökurnar brögðuðust  líka vel.  Ég sá um baksturinn með góðri aðstoð frá mömmu sem er allrabest í heimi.  Hún hjálpaði mér líka að skreyta terturnar.

20090531234255_103
 

20090531234326_111

Allir fóru saddir úr veislunni, drifu sig að skipta um föt og koma sér í Eurovisiongírinn þar sem keppnin var um kvöldið.  Stemning kvöldsins var frábær og skemmtu sér allir vel og úrslitunum í annað sætið var vel fagnað.

20090531234511_139

20090531234410_122

Strákarnir fóru svo báðir í skólaferðalag strax eftir fermingarhelgina - Sindri gekk inn í Kolbeinsdalinn og gisti þar eina nótt en Bjarni fór suður til Reykjavíkur, hitti forsetann á Bessastöðum, fór á Akranes, Snæfellsnesið, sigldi um Breiðafjörðinn og hélt svo heim þremur dögum og nóttum síðar. 

Sindri Gunnar hélt svo afmælisveislu fyrir vini sína með pomp og prakt. 

20090602224719_4

20090602224727_6

 Já, mánuðurinn var einstaklega viðburðaríkur en við nutum hans einstaklega vel og verður sérstaklega vel í minnum hafður um ókomna tíð.  Við erum þó þakklátust fyrir allar ánægjulegu samverustundirnar sem við höfðum með fjölskyldum okkar og vinum á þessum gleðiríku, fallegu maídögum.


þinn hugur svo víða....

Ja-há, mjög langt síðan ég skrifaði hér síðast.  Það er svo sannarlega ekki vegna þess að ég hef ekkert að skrifa um - síður en svo.  Margt hefur verið um að vera - tvær Hafnarfjarðarferðir með stuttu millibili, fermingarundirbúningur hafinn og nóg að stússast dags daglega.  Það má þó segja að hugurinn hafi haft hvað mest að gera að undanförnu og enga hvíld fengið. 

Það er svo sem ósköp eðlilegt þegar um svona mikilfenglegan og einstaklega gáfaðan hug er að ræða en fyrr má nú aldeilis vera þegar hann unnir sér engrar hvíldar.  Það sem haldið hefur umræddum hug einstaklega uppteknum upp á síðkastið er sú hringekkja sem við upplifum þessa dagana. 

Þinn hugur svo víða um veröldu fer,

þú virðist ei skilja hvað næst þér er.

Þig dreymir um sumardýrð sólgullins lands,

en sérð ekki fegurð þíns heimaranns.

 

Ef sýnist þér tilveran grettin og grá,

og gleðinni lokið og ekkert að þrá,

þá forðast skalt götunnar glymjandi hó,

en gæfunnar leita í kyrrð og ró.

 

Já – gakk til þíns heima, þó húsið sé lágt,

því heima er flest sem þú hjartfólgnast átt.

Ef virðist þér örðugt og viðsjált um geim,

Þá veldu þér götu sem liggur heim.

 

Þú leitar oft gæfunnar langt yfir skammt,

þú leitar í fjarlægð en átt hana samt,

nei – vel skal þess gæta hún oftast nær er,

í umhverfi þínu hið næst þér.

                                                    Tryggvi Þorsteinsson

 

Þessi frábæri texti er í miklu uppáhaldi hjá mér og mér finnst hann eiga vel við núna.  Við hringsnúumst sem sagt í ákvarðanatöku um hvort við verðum áfram hér fyrir norðan eða hvort við séum alkomin heim í sumar. 

Og það er ekki nóg að við látum hug segja til um hvað úr verður heldur eru fjölmargir utanaðkomandi þættir sem spila inn í.  Atvinna, leigjendur og leiguverð eru þættir sem taka þarf í reikninginn.  En það er orðið nokkuð öruggt að við munum eiga norðlenskt sumar með skóginn við túnfótinn og er alveg ljóst að skógarferðirnar með nesti og teppi að vopni verða fjölmargar í sumar.

Hver sem lendingin verður, þá verðum við mjög sátt og ánægð - það eru svo sannarlega forréttindi að líða vel á báðum stöðum.


Dansað í gegnum lífið

Það má segja að lífið sé eins og dans.  Mjög fjölbreytt og býður upp á marga möguleika.  Oft mistekst okkur og við eigum erfitt með að læra dansinn og stundum hrösum við.  Þá stöndum við upp aftur og höldum áfram að reyna þangað til við náum góðum tökum á honum.  Takturinn er misjafn og við lærum að dansa ólíkt eftir því - stundum hratt, stundum hægt og stundum stöndum við í stað.  Dansfélagarnir eru ólíkir og við þurfum að laga okkur eftir þeim en þeir verða líka að laga sig að okkur.  Sífellt lærum við ný spor og sum eru erfið - virðast jafnvel ekki hægt að stíga.  En með góðum dansfélaga er auðveldara að takast á við erfiðleikana og yfirstíga þá og halda svo dansinum áfram.  

Frá því ég var lítil hef ég haft gaman af að dansa.  Ég og Gunnar bróðir fórum saman í dansskóla og man ég eftir að hafa þar dansað hóký póký í fyrsta sinn og að einhver strákur reyndi að sleikja mig í framan!  Þrátt fyrir þá hroðalegu reynslu hélt ég áfram að hafa áhuga á dansi þó ég stundaði hann ekki mikið.  Það var ekki fyrr en ég kynntist dansfíflinu (ekki illa meint - mér finnst þetta bara svo skemmtilegt orð!) honum Þórði mínum sem ég fór að dansa meira - enda var ég þar með komin inn í dansfjölskyldu mikla sem nýtir hvert tækifæri til að dansa.

Nýlega kom danskennari í sveitina og var með námskeið í grunn- og leikskólanum á Hólum og í Hofsósi fyrir börnin.  Að sjálfsögðu voru svo danssýningar í lok námskeiðsins.  Ég mætti auðvitað með myndavélina og náði myndbandi af Bjarna og félögum dansa Grease.  Bjarni er lengst til hægri - hávaxinn, ljóshærður og glæsilegur Smile

Aníta og Sindri stóðu sig líka mjög vel og tók ég myndir af þeim - ekki þó video.

IMG_4653IMG_4686

Já þetta eru upprennandi danssnillingar enda hafa þau ekki langt að sækja þetta.  Sjálf hef ég ekki dansað mikið upp á síðkastið en vonandi breytist það fljótt.  Ég tel dans vera allra meina bót - eykur úthald og styrk auk þess sem hann reynir á fjölda vöðva og samhæfinguna.  Svo er þetta bara svo rosalega skemmtilegt og bæði stund og staður gleymist á meðan dansað er.

Ég hvet alla til að fara að dansa og gefast þar með tækifæri til að gleyma um stund ástandinu á þessum síðustu og verstu tímum.  Og förum dansandi í gegnum lífið.


Tími góðæris er kominn

Það eru svo sannarlega orð að sönnu þegar talað er um nýja Ísland.  Landið eins og við höfum þekkt það undanfarin ár hefur breyst mikið og snerta þessar breytingar okkur öll á einhvern hátt.  Þessar breytingar hafa komið okkur mjög illa þar sem sífellt fleiri missa vinnuna, matarverð hækkar og lánin hafa hækkað upp úr öllu valdi.  Já þetta eru þættir sem allir myndu vilja vera án. 

En það eru fleiri þættir sem hafa tekið breytingum í samfélaginu okkar og það eru breytingar sem ég fagna.    Talað var um góðæri þegar peningarnir streymdu inn til landsins í ómældu magni, fjölmiðlar hömpuðu þeim sem græddu hvað mest í viðskiptum burtséð frá því að þau væru misheiðarleg og útrásarvíkingarnir voru hetjurnar sem höfðu forsetann sjálfan sem klappstýru.  Þau skilaboð sem þjóðin fékk var að græða sem mest - skítt með öll gildi.  Já þetta var kallað góðæri.

Ég lít hins vegar svo á að nú fyrst sé góðærið að hefjast.  Þau lífsgildi sem við höfum alltaf haft að leiðarljósi en voru lítils metin og týndust í græðginni, eru aftur komin fram í dagsljósið.  Vissulega er skelfilegt að þjóðin þurfi að ganga í gegnum þessar miklu hörmungar til að hugsunarhátturinn breytist en áföllin styrkja okkur. 

Við erum aftur farin að huga að því hvað skiptir okkur í raun og veru máli.  Fjölskyldan, heilsan og vinirnir eru það mikilvægasta.  Að eiga þak yfir höfuðið, hafa vinnu og geta framfleytt fjölskyldunni er lúxus.  Að geta komist út fyrir landsteinanna oft á ári, fá flott stöðuheiti og búa í einbýli skiptir engu máli lengur. 

Nú reynir á styrk okkar og þau lífsgildi sem við höfum haft alla tíð utan þess ,,góðæris'' tíma þegar skilaboðin voru önnur.  Nú hefst hið sanna góðæri þar sem við metum heiðarleika, hjálpsemi, góðvild, tryggð og aðrar góðar dyggðir að verðleikum.  Með þessa hugsun að baki komum við sterkari út úr þessum erfiðu tímum með góða samvisku því við gerum okkar allra besta og sýnum virkilega hvað í okkur býr.


Þakklæti

Jæja, aldeilis kominn tími á nýtt blogg.  Nýja árið komið vel af stað, reyndar með veikindum á heimilinu.  Eftir einstaklega yndislega jólahátíð þá herjaði gubbupest á alla heimilismeðlimi með tilheyrandi afleiðingum.  Aníta og Bjarni fengu pestina fyrst, svo heilsuðu Sindri og Elsa nýja árinu með uppköstum og svo lokuðum við hjónin hringnum með því að vera gubbandi fyrstu daga ársins.  En við skruppum suður um daginn yfir helgi og áttum ljómandi góðar stundir með fjölskyldunni.  Alltaf jafn gott að koma suður en alltaf jafn erfitt að kveðja og halda heim á leið.  Nú eru Aníta og Sindri búin að næla sér í hita og hósta og flatmaga í foreldranna rúmi og láta dekra við sig meðan litla krílið heldur áfram að æfa sig á gólfinu og skjóta sér horna á milli.  Hún er byrjuð að fá graut sem henni líkar ágætlega og sættir sig við gulrótarmauk.  Ávaxtamaukið vill hún hins vegar ekki fá.  Fyrsta tönnin brýst í gegn líklega á næstunni og hún segir mammmmmmmma, mammmmm allan daginn. 

Fyrir jólin 2007 flutti ég hugvekju í Hóladómkirkju þar sem ég fjallaði meðal annars um hversu þakklát við mættum vera fyrir að búa á Íslandi.  Þá höfðu nýlega borist gögn um það að mestu lífsgæðin væru hér á landi og Ísland því best í heimi.  Með þessum titli fælist þó sú ábyrgð að hlúa að þeim sem hefðu það ekki eins gott og við.  Ég veit ekki hvar Ísland myndi skora á sama lista núna því samfélagið eins og við höfum alltaf þekkt það hefur tekið miklum breytingum á undanförnum mánuðum.  Þessar breytingar á samfélaginu snerta okkur öll á einhvern hátt og sumir eiga mjög erfitt vegna þeirra.

En þó að Ísland sé ekki endilega lengur best í heimi þegar kemur að efnahagsmálum og ótrúlega furðulegum aðgerðum ríkisvalda finn ég enn fyrir miklu þakklæti fyrir að búa á Íslandi.  Ég er þakklát fyrir að búa ekki á Gaza þar sem fjöldi saklauss fólks lætur lífið vegna trúarbragða.  Þakklát fyrir að búa ekki í einhverju þeirra fjölda landa sem ríkir vatnsskortur heldur get skrúfað frá krananum og drukkið eins mikið vatn og ég vil.  Þakklát fyrir að búa ekki í Ameríku þar sem ég get verið handtekin fyrir að skilja barnið mitt eftir úti í vagni.  Þakklát fyrir að búa ekki í Kína þar sem ég mætti einungis eiga eitt barn.  Þakklát fyrir að búa ekki í svo fjölmennu landi að hvert mannslíf er lítið metið.  Þakklát fyrir að veikindin sem herja á heimilið eru bara gubbupest og flensa.

Með kæru þakklæti


Jóla- og áramótakveðja 2008

 

Kæru vinir komið er að jólum,

kærkomið er nú að greina frá,

hvað hefur gerst á árinu á Hólum,

heilmikið hér hefur gengið á.

 

Útskrifaður Þórður er frá skóla,

BA ferðamálafræðum úr.

Hann er nú umhverfisfulltrúi Hóla,

á harmonikku spilar moll og dúr.

 

Linda nýtur lífsins alla daga

með litla heimasætu sér við hlið.

Í boot-camp losnar líklega við maga,

það þolir ekki lengur neina bið.

 

Í skóla á Hólum Bjarni er ei lengur,

hann fer í bíl í Hofsós daglega.

Feiknastór er sá fermingardrengur,

á píanóið spilar fallega.

 

Á gítarinn hann Sindri Gunnar leikur,

góður, ljúfur, yndislegur er.

Í Star wars leikjum er hann ekki smeykur,

í tölvuleikjum verður stundum þver.

 

Á tánum tiplar um án þess að stansa,

balletprinsessa svo tignarleg.

Í gegnum lífið Aníta mun dansa,

ljóshærð, ljúf og alltaf skemmtileg.

 

Svo fæddist eina júnínótt svo bjarta,

fallegt fljóð sem flýta vildi sér.

Með brosi sínu bræðir hún hvert hjarta,

blíð og góð hún Elsa Margrét er.

 

Fallegt er að líta yfir Hóla,

fjallafegurðin er engu lík.

Við óskum ykkur gleðilegra jóla,

og framtíð verði glæst og gæfurík.


Í dimmum desember - af annríki, jólasveinum og öðrum furðuverum

Úff, hvar á ég að byrja?  Það er búið að vera svo mikið annríki hjá mér síðustu tvær vikur að ég hef ekkert mátt vera að því að blogga.  Við fórum suður til Hafnarfjarðar fimmtudaginn 4. desember og vorum þar fram á mánudaginn 8. des.  Við náðum ekki að leggja af stað suður fyrr en rúmlega fimm síðdegis og vorum komin um hálftíuleytið suður með matarstoppi í Staðarskála. Ég náði að kasta stuttri kveðju á vinkonur mínar sem voru með mér í Kennó en þær hafði ég ekki hitt síðan áður en ég flutti norður fyrir um 2 1/2 ári síðan með þeirri undantekningu þó að nokkrar þeirra hitti ég í húsdýragarðinum í fyrrasumar.  En það var mjög ánægjulegt að hitta skvísurnar og heyra nýjasta slúðrið og fá fréttir af þessum frábæru stelpum.  En klukkan rúmlega 11 vorum við komin í hlýjuna í Þrastarási hjá mömmu og pabba.  Það er aldeilis mikilvægt að eiga alltaf samastað þar þegar við komum suður og það fer alltaf virkilega vel um stórfjölskylduna þar.

Föstudagurinn fór að mestu í ýmsar útréttingar og ýmislegt þurfti að kaupa fyrir jólin.  Við vorum reyndar búin að kaupa langflestar jólagjafirnar og pakka þeim inn en Anítu vantaði jólakjól og skó, Bjarna Degi vantaði skyrtu og skó og ýmislegt annað þurfti að huga að.  Um kvöldið hitti ég bestu vinkonurnar í saumó hjá Krissu.  Þær eru svo yndislegar þessar elskur og við mættum allar.  Á laugardeginum náðum við að taka það rólega fram eftir degi.  Svo litum við í jólaþorpið í Hafnarfirði sem er mjög flott og mér finnst það aldrei hafa verið flottara en núna.  Svo litum við til Dóru sem leist svo vel á Elsu Margréti sem hún hitti í fyrsta skipti.  Svo tók við jólaboð í Rjúpnasölum.  Við vorum svo heppin að Brynja og Bjartur Bóas voru á landinu og litlu frændsystkini léku sér saman á gólfinu.  Aníta og Sindri fóru í næturgistingu hjá frænkum sínum Helgu og Lilju og nutu sín vel í góðu yfirlæti

Á sunnudaginn var svo jólaboð í Þrastarásnum.  Það vill reyndar svo til að fjölskyldan lendir yfirleitt í einelti í jólaboðum af boðflennu einni sem Hurðarskellir nefnist.  Hann kom færandi hendi með gjafir handa öllum, stórum sem smáum..  Svo óheppilega vildi til að Þórður var einmitt fjarverandi þegar hann átti að fá sína gjöf (það gerist ótrúlega oft þegar Hurðaskellir kemur - tilviljun?) og sögðu Aníta og Sindri að pabbi þeirra væri svo oft að stríða þeim.  Þegar kom að því að ég fékk mína gjöf sagði Hurðaskellir að ég væri búin að vera svo óþekk að það væri óvíst hvort ég ætti skilið að fá gjöf.  Hún yndislega Aníta Sóley mín kom mér til varnar eins og vanalega þegar hún telur sig þurfa að verja mig og sagði að ég væri sko ekki óþekk - ég væri alltaf að verja þau fyrir pabba sínum!  Hmmm, ef fjölskyldan mín þekkti okkur ekki betur, mætti auðveldlega álykta sem svo að heimilið okkar væri stríðsvöllur þar sem ég geng fram fyrir skjöldu til verndar börnum mínum fyrir hræðilegum föður.  En þetta var glæsilegt hlaðborð og svo tróð hljómsveitin Sykur og malt upp og flutti nokkur jólalög.  Við fórum svo í afmælisboð hjá Immu og hittum þar nokkra ættingja Þórðar sem við höfðum ekki hitt lengi.

Á mánudaginn fórum við svo heim eftir sérstaklega ánægjulega daga í Firðinum.  En eins og vanalega tók það marga tíma að komast af stað úr bænum því fleira þurfti að útrétta á leiðinni heim og vorum við komin um hálftíu um kvöldið heim til Hóla.

Strax á þriðjudagsmorguninn fórum við til Akureyrar með leikskólanum og grunnskólanum að sjá leikritið Leppur, Skreppur og jólaskapið sem var virkilega skemmtilegt.  Á miðvikudaginn var piparkökuskreyting í leikskólanum og á fimmtudaginn voru jólatónleikar kórs Hóladómkirkju þar sem Þórður var að syngja.  Á föstudagsmorguninn var ég í skólanum á Hofsósi með Bjarna og entist varla tíminn að föndra allt það skemmtilega sem í boði er.  Ég var svo heppin að kennararnir kepptust um að fá að halda á Elsu Margréti svo við gátum dembt okkur í föndrið.  Eftir hádegi fórum við í Hólaskóla að skera út laufabrauð og steikja - frábær stemning var þar ríkjandi. 

Á laugardaginn spiluðu strákarnir á tvennum tónleikum.  Bjarni spilaði í Hofsósi og svo spiluðu þeir báðir í Hóladómkirkju.  Glæsilegar kaffiveitingar voru á báðum stöðum að tónleikum loknum.  Á sunnudaginn var aðventuhátíð í kirkjunni.  Sindri Gunnar lék fjárhirði í helgileiknum og Aníta söng.  Svo sýndi Sindri einstök tilþrif á þríhorn sem hann lék á og söng um leið.  Svo var aðventukaffi á eftir sem við kvenfélagskonur sáum um.  Það er alveg ljóst að mataræðið er ekki með dönsku ívafi þennan desembermánuðinn.

Í gær fórum við tvær ferðir á Krókinn.  Fyrst fórum við með Elsu Margréti í 6 mánaða skoðun - krílið er orðið hálfsárs, 7640 grömm og 66 cm.  Nú bíður hún bara spennt eftir jólunum því hún fær fyrsta grautinn sinn á aðfangadag þegar við borðum jólagrautinn okkar.  Svo fórum við aftur til að fara með börnin til tannlæknis og Þórður fór í harmonikkutíma á meðan.  Við vorum komin frekar seint til baka svo ég sleppti starfsmannagleði leik- og grunnskólans sem var þá að ljúka.  Í dag er skutl fyrir Anítu til og frá Narfastöðum í afmæli og í kvöld er jólavaka grunnskólans í Hofsósi.  Þar mun Bjarni leika á píanóið og við mætum að sjálfsögðu.  Fyrir vikið missi ég af jólasaumó hjá Örnu Björg í Ásgeirsbrekku. Á föstudaginn er svo jólaball leik- og grunnskólans á Hólum og jólaball grunnskólans í Hofsósi.  Það er því búið að vera nóg að gera hér á bæ.

En þó svo mikið annríki hefur ríkt hér á bæ, þá er þetta yndislegur tími sem ég ætla mér að njóta í botn.  Gleðin jókst enn frekar á heimilinu þegar rauðklæddu boðflennurnar tóku að læðast hér að næturlagi.  Ýmsar væntingar eru hjá Sindra og Anítu um hvað þau fái í skóinn og ýmislegt er lagt á sitt til að tryggja góðan afrakstur.  Aníta taldi sig þurfa að hjálpa Sindra að hátta sig um daginn - til að tryggja það að jólasveinarnir sæju hversu hjálpsöm hún er.  Sindra fannst nú ekkert skemmtilegt að láta Anítu hátta sig - enda töluvert fullorðnari en hún!  Í fyrra kom það í hlut okkar foreldranna að skrifa orðsendingu frá Sindra til jólasveinanna.  ,,Stekkjastaur - þú ert bestur''! stóð á miðanum sem hann fékk.  ,,Giljagaur - þú ert bestur''!  stóð á miðanum til þess næsta og svo koll af kolli. Núna skilur hann eftir hin ýmsu eldhúsáhöld úti í glugga.  Við vorum ekki með neina óhreina þvöru þegar von var á Þvörusleiki svo við urðum að gjöra svo vel að óhreinka hana hið snarasta svo drengurinn gæti blíðkað sveinka.  Sama gilti um pönnuna fyrir Stúf og pottinn fyrir Pottasleiki .  Í morgun spurði kauði mig svo hvort ég gæti ekki hringt í ömmu Elsu og afa Þóri og beðið þau um að senda sér gamla askinn sem þau eiga, svo hann gæti nú dekstrað við Askasleiki í nótt.  Drengurinn verður bara að láta sér disk nægja í þetta sinn.  Já, þetta er mikil góðmennska frá hans bæjardyrum séð en mér finnst þetta vera hinn mesti tækifærissinni - en það er nú líka allt í lagi. 

Þegar ég spurði Anítu í morgun hvað hún hefði fengið í skóinn í nótt, svaraði hún - ,,mamma, ef ég þarf að pissa og vil ekki pissa í mig, hvað geri ég þá?''  Ég svaraði henni þá að hún myndi nú sennilega fara á klósettið.  Þá svaraði hún;  ,,rétt hjá þér, ég fékk klósett í skóinn, Playmóklósett og Sindri fékk Playmóvask.''  Þessir jólasveinar eru nefnilega svo sniðugir að þau fá playmó í  smáskömmtum þessa dagana sem þau svo safna saman.  Gullkornin hrynja gjörsamlega af Anítu Sóleyju þessa dagana.  Þar sem foreldrunum er báðum mjög umhugað um umhverfið þá höfum við sagt dömunni að hún eigi alltaf að slökkva ljósið í herberginu þegar hún er þar ekki.  Auk þess hefur hún fengið fræðslu í leikskólanum sem vinnur að því að fá Grænfánann.  Auk þess hefur ekki farið fram hjá henni umræðan um minnkandi fjárhag hjá öllum fjölskyldum í landinu og um fátæku börnin sem deyja því þau fá ekki mat að borða.  Um daginn slökkti ég ekki ljósið inni í herbergi þar sem ég var að fara þangað strax inn aftur og þá sagði hnátan þessa snilldarsetningu þar sem hún var búin að blanda þessu öllu saman í einn hrærigraut;  ,,Mamma, hvað er að þér, ætlarðu að drepa okkur öll , þú skilur eftir kveikt ljósið!''

Hafið það sem allra best á aðventunni.


Jólasveinakönnun

Endilega svarið könnuninni hér til hliðar.  Sumir telja sig eiga hagsmuna að gæta, ég nefni engin nöfn en hann er einstakur áhugamaður um hvers kyns hurðir og hvernig skella megi þeim sem fastast.

Annars má nú segja að stórir jafnt sem smáir njóti sín sérstaklega vel þessa dagana þegar jólaundirbúningurinn er hafinn.  Börnin njóta þess sem aldrei fyrr að skoða jólaskrautið, lesa jólasögur og gæða sér á öllum smákökusortunum.  Á laugardaginn fórum við á Krókinn og börnin horfðu á þegar jólaljósin á jólatrénu voru tendruð.  Þau fengu líka að fara í reiðtúr á hestvagni.  Og til að kóróna þetta allt þá snjóaði stórum snjókornum á meðan þessu stóð.  Um kvöldið var svo jólahlaðborð Hólaskóla.  Ljúffengur matur, fyndin skemmtiatriði, helling af fólki og góður félagsskapur.

En eins og ég skrifaði hér á undan þá eru það stórir jafnt sem smáir sem njóta sín.  Mér finnst þessi árstími yndislegur og skammdegið finnst mér vera einstaklega heillandi þó ég viti að það eru ekki allir sammála því.  Annar fjölskyldumeðlimur sem teljast á fullorðinn nýtur sín sem aldrei fyrr í desember.  Þá getur hann nefnilega verið hann sjálfur án þess að þurfa að afsaka sig - enda er það löggiltur jólasveinn á ferðinni sem fæddist á jólunum.  Þessi tiltekni fjölskyldumeðlimur hefur hingað til leyft sér ótrúlegustu hluti í nafni sveinka og svo aðeins örfá dæmi séu nefnd þá hefur hann tekið við stjórn lögreglukórsins og troðið sér inn á milli kórmeðlima og sungið hástöfum, kallað yfir alþingismenn á jólaballi að þeir séu jólasveinar sem einhverra hluta vegna þurfa ekki að hírast mest allt árið í Grýluhelli, ávarpað dómsmálaráðherra á þann hátt að hann hafi verið óþekkt barn og fengið hina og þessa fræga og ófræga til að gera alls konar vitleysu.

Já það er óhætt að segja að allir fjölskyldumeðlimir njóta sín vel þessa dagana.  Meira að segja er litla yndið snortið af jólaljósunum þó hún sé mest upptekin núna af því að fá fyrstu tönnina sína sem gengur ekki þrautalaust fyrir sig.

Njótið aðventunnar.


Þegar piparkökur bakast...........

Og svo segja einhverjir að maður hafi ekkert að gera í fæðingarorlofi!  Það er alltaf nóg að gera hjá mér, svo mikið að ég hef ekki gefið mér tíma til að blogga alltof lengi.  Ég hef síðustu vikuna verið upptekin við smákökubaksturinn.  Ég er búin að baka 9 sortir og á bara piparkökurnar sem ég flet út eftir.  Ég geymi það yfirleitt alltaf þangað til síðast því mér finnst nauðsynlegt að vera búin að skreyta þegar ég og börnin ráðumst í þetta viðfangsmikla en bráðskemmtilega verkefni að baka piparkökurnar.

Sjálfri finnst mér 10 sortir af smákökum svolítið mikið, en ég get ekki hugsað mér að sleppa neinni þeirra og eru mömmupiparkökurnar, sörurnar, hálfmánarnir, mömmukökurnar, loftkökurnar, lakkrístopparnir, ostakexið, súkkulaðibitakökurnar, brjóstsykurtopparnir og piparkökurnar ómissandi þáttur í jólahaldinu hjá okkur.  Og það besta er að heimilisfólkið er mjög þakklátt og borðar þetta allt með góðri lyst.

Föstudaginn fyrir viku var nóvemberskemmtun í grunnskólanum á Hólum.  Þessi skemmtun er árlega í kringum dag íslenskrar tungu og er sko ekki að spyrja að því að börnin stóðu sig með eindæmum vel.  Sindri Gunnar lék lofthræddan hrafn í leikriti um landnám Íslands og Aníta Sóley lék vinnukonu í leikritinu ,,en hvað það var skrítið''.  Leikskólinn er nefnilega með í skemmtuninni og er eitt af mörgum dæmum um hversu góð samvinna er á milli skólastiganna tveggja.  IMG_3670Það er frábært að sjá hvað börnin og kennararnir leggja mikinn metnað í skemmtunina og var þetta virkilega skemmtilegt eins og fyrri ár.  Hér koma myndir af þeim systkinunum.

 

 

Sindri Gunnar lengst til vinstri

 

 

Aníta Sóley skvísaIMG_3657

En nú er jólaskrautið að mestu komið upp.  Ég uppgötvaði reyndar í gær að það vantar að minnsta kosti einn kassa af jólaskrauti sem er einhvers staðar í bílskúrnum mínum í Hafnarfirði.  Það verður einstaklega gaman að leita að kassanum þegar við komum suður ;) - Þórður, þessu er sérstaklega beint til þín!! 

Elsa litla er með bólginn góm þessa dagana og styttist í fyrstu tönnina.  Hún er samt ótrúlega róleg miðað við hversu vont þetta hlýtur að vera.  En piparkökubaksturinn verður sem sagt í dag - mmmmmm, hvað ég hlakka til!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband